Hlaup númer þrjú í vetrarhlaupasyrpu Hlaupahéranna á Egilsstöðum.
Að morgni gamlársdags fer fram þriðja vetrarhlaupið í vetrarhlaupasyrpu Hlaupahéranna á Egilsstöðum.
Eins og vanalega verða hlauparar ræstir frá Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum en að þessu sinni hefst hlaupið klukkan 10:00. Byrjað verður að taka við skráningum hálftíma fyrir hlaup. Þátttökugjald er 1.000 kr. og innifalin er létt hressing. Vakin er athygli á því að sundlaugin er lokuð þennan dag svo ekki er hægt að láta líða úr sér í pottinum eftir hlaupið.
Að hlaupi loknu verður að venju dregið um veglega vinninga og að þessu sinni er það verslunin Alparnir sem gefur vinningana. Hlaupið er tilvalið tækifæri fyrir alla skokkara til að hlaupa inní nýtt hlaupaár og hita um leið upp fyrir átök kvöldsins í góðum félagsskap.
Vetrarhlaupin fara fram síðasta laugardag í mánuði frá október og fram í mars, nema í desember en þá er hlaupið á gamlársdag. Hlaupnir eru 10 km með tímatöku og gefur þátttaka í hverju hlaupi 1-5 stig. Stigahæstu einstaklingarnir verða svo verðlaunaðir í lok vetrar. Einnig er boðið upp á 5 km hlaup með tímatöku en þau gefa ekki stig. Allir eru velkomnir, byrjendur sem reyndir hlauparar.