Vel heppnaður dansdagur hjá UMF Þristi
Nú í lok nóvember hélt UMF Þristur þemadag á Hallormsstað. Þemað að þessu sinni var dans og óhætt er að segja að dansinn hafi dunað dátt þennan daginn. En 15 þátttakendur dönsuðu af sér skóna langt fram eftir degi. Áhersla var lögð annars vegar á freestyle dansa undir stjórn Emilíu Antonsdóttur Crivello og hins vegar samkvæmisdansa sem Michelle Lynn Mielnik og Bjarki Sigurðsson leiddu.
Eftir að hafa lært hin ýmsu spor og snúninga fengu þátttakendur að spreyta sig í danssmiðju, þar var unnið í hópum og samdi hver hópur dans og sýndu í lok dags. Útkoman var afar frumleg og skemmtileg og það voru þreyttir en glaðir dansarar sem héldu heim síðdegis.