Æfingabúðir Afrekshóps UÍA í sundi.
Um síðustu helgi voru haldnar æfingabúðir fyrir afrekshóp UÍA í sundi í tengslum við bikarmót UÍA á Djúpavogi. En hópnum er ætlað að styðja við efnilegt sundfólk á svæðinu og hvetja það til frekari afreka í íþróttinni. Sunddeildirnar sex á Austurlandi standa að hópnum en yfirþjálfari hans er Óskar Hjartarson. Æfingabúðirnar hófust með stuttum fundi kl 17:00 á laugardag, þar var meðal annars farið yfir það sem framundan er í vetur og ljóst að af nógu er að taka. Stefnt er að því að halda 10 æfingabúðir á ári, sækja sundmót utan fjórðungs og mögulega sækja æfingabúðir með öðrum félögum.
Að fundi loknum stungu afrekshópskrakkarnir sér til sunds, og farið var yfir ýmis tækiatriði svo sem stungur, snúninga og baksundsveltur. Þegar allir voru komnir á þurrt var snæddur kolvetnaríkur kvöldverður enda átök framundan, því daginn eftir kepptu krakkarnir á Bikarmóti UÍA í sundi. Eftir kvöldmat var farið í Trivial Persuite þar sem strákar kepptu á móti stelpum og er skemmst frá því að segja að strákar lutu í lægra haldi fyrir stelpum. Eftir það var horft á eina bíómynd sem reyndar kláraðist aldrei því flestir voru þreyttir og sofnuðu snemma enda mikilvægur dagur daginn eftir.
Þakkir fá Skúli Björn Gunnarsson Hetti, Kristján Einar Davíðsson Austra og Íris Valsdóttir Leikni fyrir gott samstarf yfir helgina.