Annað hlaup í vetrarsyrpu Hlaupahéranna á laugardag

Næstkomandi laugardag fer fram annað vetrarhlaupið í vetrarhlaupasyrpu Hlaupahéranna á Egilsstöðum.

13 hlauparar skráðu sig til leiks í fyrsta hlaupið sem fram fór við kjöraðstæður. Mörgum tókst að bæta sína bestu tíma og því má búast við hörku keppni þegar líður á veturinn. Ljóst er að færðin er hlaupurum ekki hliðholl þessa dagana en það er einn af kostunum við vetrarhlaupasyrpuna, engin tvö hlaup eru eins sem eykur á fjölbreytnina og spennuna.

Eins og vanalega verða hlauparar ræstir frá Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum kl. 11:00 og byrjað verður að taka við skráningum hálftíma fyrir hlaup. Þátttökugjald er 1.000 kr. og innifalið er létt hressing og aðgangur að sundlauginni eftir hlaup.

Að hlaupi loknu verður að venju dregið um veglega vinninga og að þessu sinni er það Skógrækt ríkisins á Hallormsstað sem gefur vinningana.

Vetrarhlaup Hlaupahéranna fara fram síðasta laugardag í mánuði frá október og fram í mars. Hlaupnir eru 10 km með tímatöku og gefur þátttaka í hverju hlaupi 1-5 stig. Stigahæstu einstaklingarnir verða svo verðlaunaðir í lok vetrar.

Einnig er boðið upp á 5 km hlaup með tímatöku en þau gefa ekki stig. Allir eru velkomnir, byrjendur sem reyndir hlauparar.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ