Stórgóður árangur UÍA keppenda á Silfurleikum ÍR

 

Silfurleikum ÍR fóru fram í Laugardalshöllinni síðastliðinn laugardag. Mótið er haldið til að minnast afreka Vilhjálms Einarssonar sem vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourn í Ástralíu árið 1956 og hefur það notið vaxandi vinsælda. Heildarfjöldi keppenda sló nýtt met þegar 666 íþróttamenn frá 22 félögum mættu nú til leiks. UÍA átti þar þrjá keppendur á mótinu, fóru þeir mikinn og stóðu fylliega upp í hári keppinauta sinna, sem margir hverjir æfa við topp aðstæður allt árið um kring.

 

Daði Þór Jóhannsson, sem keppir í flokki 12 ára drengja tók yfirskrift leikanna alvarlega og sankaði að sér silfurverðlaunum á mótinu. Þau hlaut hann í 60 m hlaupi þar sem hann skilaði sér yfir marklínuna á tímanum 8,87 sek, í 600 m hlaupi er hann hljóp á 1,53,24 mín, og í hástökki en þar gerði hann sér litið fyrir og stökk hæð sína í loft upp 1,42 m. Í þrístökki hafnaði Daði í 3. sæti með stökk upp á 9,62 m.

Helga Jóna Svansdóttir sem keppir í flokki 14 ára stúlkna, stórbætti sig í 60 m hlaupi og hafnaði í 3. sæti á tímanum 8,70 sek.  Helga Jóna fékk einnig brons í þrístökki er hún stökk 9,86 m.

Mikael Máni Freysson sigraði í hástökki 14 ára pilta með stökki upp á 1,67 m og bætingu um 10 cm, hann varð þriðji í 800 m hlaupi á tímanum 2,27,06 og hlaut einnig brons í þrístökki með stökk upp á 10,51 m.

Þrátt fyrir að keppendur UÍA væru fáir og áhangendur þeirra sömuleiðis, létu þeir síðarnefndu vel í sér heyra í stúkunni og voru á við heila hersveit þegar okkar keppendur geystust eftir hlaupabrautinni.

Framkvæmd mótsins gekk afar vel enda um 100 sjálfboðaliðar sem lögðu hönd á plóginn. Almennt var árangur á mótinu góður og nokkur Íslandsmet féllu. Þórdís Eva Steinarsdóttir FH átti góðan dag og setti Íslandsmet í 60m grindahlaupi og 600m hlaupi í sínum aldursflokki, 12 ára stúlkur. Reynir Zoega Geirsson Breiðabliki setti Íslandsmet í kúluvarpi 13 ára pilta.

Heildarúrslitmótsins má nálgast hér á vef FRÍ.

Við óskum okkar fólki innilega til hamingju með árangurinn.

Myndin hér til hliðar er fengi af vef Breiðabliks og sýnir Helgu Jónu á harðaspretti í 200 m hlaupi á Silfurleikunum.

 

 

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ