Lið UÍA hlutskarpast í Hjólað í vinnuna

Lið UÍA var sigursælt í átakinu Hjólað í vinnuna þetta árið. Í vor hlaut liðið viðurkenningu frá ÍSÍ fyrir 1. sæti í fjölda þátttökudaga en allir þrír liðsmenn liðsins hjóluðu alla 13 daga átaksins. Nú í síðustu viku kom verkefnisstjóri umhverfismála á Fljótsdalshéraði færandi hendi á skrifstofu UÍA með viðurkenningarskjal og plöntu til handa liðinu en það varð hlutskarpast liða á Fljótsdalshéraði. Lið bæjarskrifstofu Fljótsdalshéraðs og HEF varð í öðru sæti og lið KPMG og SKRA í því þriðja.

 

Liðsmenn UÍA liðsins þau Gunnar Gunnnarson formaður UÍA, Hildur Bergsdóttir framkvæmdastýra og Vilborg Stefánsdóttir meðstjórnandi hjóluðu samtals 527 km og voru kampakát með verðlaunin síðbúnu og árangurinn í heild, enda nokkuð fyrir honum haft. Því eins og margir muna var tíðin í vor, á meðan átakinu stóð, nokkuð risjótt og skilyrði til hjólreiða misjöfn. Allt er þó hægt ef viljinn er fyrir hendi eins og þessi reynslusaga Hildar Bergsdóttur framkvæmdastýru og liðsstjóra UÍA liðsins ber með sér, en hún birtist á vef átaksins i vor:

 

Ég komst að því í morgunn að þetta er spurning um vilja og viðhorf, ekki veður.

Upplifun morgunsins var einhvern veginn svona:

Sleit hjólið úr skaflinum og dustaði af því mesta snjóinn. Paufaðist upp snjóuga og svellhála heimreiðina, með nístingskaldan norðanvindinn......og nóg af honum í fangið. Hugsaði með mér þegar ég sneiddi hjá sköflunum á veginum ,,Rækallinn ég er líklega eins klikkuð og fólk vill vera að láta!" 5 km látlaust streð á móti vindi, varð blessunarlega til þess að mér fór á sjötta km, að hlýna á fingrunum, og líf færðist í þá inni í þreföldu ullarvettlingunum. Þegar nær dróg Egilsstöðum lægði vindinn og það fór að snjóa....góð skipti! Krapi var á veginum við Egilsstaði og var leiðinlegur en allt hafðist þetta. Varð loks, eftir 18 km hlýtt á tánum, það er þegar ég var komin undir sturtuna í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

ÁFRAM UÍA!

 

Á meðfylgjandi myndum má annarsvegar sjá Gunnar Gunnarsson taka við viðurkenningu frá Fljótsdalshéraði og hinsvegar liðið sigursæla glaðbeitt með viðurkenningar sínar frá ÍSÍ og Fljótsdalshéraði.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok