Urð og grjót upp í mót: Fjörug fjallgönguhelgi framundan

 

Framundan hjá UÍA er fjörug og fjölskylduvæn gönguhelgi.

Laugardaginn 15. september verður gerð önnur tilraun við Sandfell við Fáskrúðsfjörð fjall UÍA 2012, en leiðinda veður hamlaði för síðustu helgi.

Á sunnudeginum 16. september verður gengið á Grænafell í tilefni af degi íslenskrar náttúru.

 

 

Fjölskylduganga á Sandfell við Fáskrúðsfjörð í samstarfi við UMF Leikni.

 

Lagt verður af stað frá bílastæðinu við fellið, sem stendur við þjóðveginn við brú á Víkurgerðisánni, kl 10:00. Guðrún Gunnarsdóttir og Eysteinn Friðbergsson gönguhrólfar leiða gönguna.

Áætlaður göngutími er 5 klst, en áætlað er að æja í botni Fleinsdals, gæða sér á nesti og fara í leiki. Þar geta yngstu göngugarparnir og fylgdarmenn þeirra snúið við leggi þeir ekki í tindinn sjálfan.

Sandfell er sérstæður bergeitillinn 734 m hár og 600 m þykkur og er eitt besta sýnishorn frá tertíertíma á norðurhveli jarðar.

Sérstök Fjölskyldan á fjallið gestabók er á toppi fellsins en nú í haust dregur UMFÍ út heppna göngugarpa sem lagt hafa leið sína á fjöll sem tilheyra verkefninu Fjölskyldan á fjallið.

Göngugarpar eru hvattir til að klæða sig eftir veðri og hafa með sér staðgott nesti.

 

Fjölskylduganga á Grænafell.

 

Gangan er í samstarfi við Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og Náttúrustofu Austurlands og farin í tilfefni af degi íslenskrar náttúru, sunnudaginn 16. september 2012.

Gengið verður upp beggja vegna fellsins og hittast hópar, frá hvoru sveitarfélagi um sig, á toppnum.

Fjarðamenn hefja göngu við Grænafellsvöll klukkan 11:00 og ganga á tindinn undir styrkri leiðsögn Þóroddar Helgasonar fræðslustjóra Fjarðabyggðar.

Héraðsmenn ganga af stað frá bílastæðinu við fellið Fagradalsmegin (merkt með gönguskilti) kl 11:00 og mun Skarphéðinn Þórisson frá Náttúrustofu Austurlands fræða um það sem fyrir augu ber.

Þegar hóparnir tveir hafa náð toppnum gæða þeir sér á nesti og gleðjast saman.

Gangan er ætluð öllum og verður hraðinn miðaður við það, auðveldara er að ganga frá bílastæðinu á Fagradal en leiðin frá Grænafellsvelli er ögn brattari, en þó auðgeng. Áætlað er að gangan á toppinn taki um ein og hálfa til tvær klukkustundir. Æskilegt er að göngumenn klæða sig skynsamlega og taka með sér nestisbita.

Gönguhrólfar eru hvattir til að sameinast í bíla og munu Héraðsmenn sameinast í bíla við UÍA skrifstofuna, Tjarnarási 6 kl 10:40 og Norðfirðingar við Náttúrugripasafnið í Neskaupstað, Egilsbraut 2 kl 10:00.

Ganga sem þessi var einnig farin á degi íslenskrar náttúru í fyrra haust, þá setti svarta þoka strik í reikninginn og vonumst við nú til þess að skyggni verði skaplegra.

Allir velkomnir.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ