Þetta afrekuðum við á Unglingalandsmótinu: Myndir og úrslit
Tæplega 100 keppendur á vegum UÍA mættu til leiks á Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið var á Selfossi um verslunarmannahelgina. Fjölmörg verðlaun skiluðu sér í hús. Hér er farið yfir helstu afrek UÍA fólks á mótinu.
Eitt stærsta afrek UÍA-hópsins vann Halla Helgadóttir strax á föstudagsmorgninum þegar hún stökk 9,01 metra í þrístökki og setti unglingalandsmótsmet í flokki 11 ára stelpna. Halla náði einnig silfri í 600 metra hlaupi (1:58,18 mín), hástökki (1,27 m.) og langstökki (4,24 m.) Þá varð hún þriðja í 60 metra hlaupi (9,59 sek).
Henrý Elís Gunnlaugsson varð fyrstur í 600 metra hlaupi 12 ára pilta á tímanum 1:49,36 mín., sex sekúndum á undan næstu mönnum.
Helga Jóna Svansdóttir vann fern bronsverðlaun í flokki 14 ára stúlkna: í 100 metra hlaupi (13,63 sek.,) 80 metra grindahlaupi (13,49 sek.), hástökki (1,47 m.) og þrístökki (9,64 m.)
Í sama flokki varð Hrefna Ösp Heimisdóttir önnur í 800 metra hlaupi (2:32,76 mín.) og þriðja sæti í langstökki (4,58 m.)
Heiða Elísabet Gunnarsdóttir varð önnur í langstökki 12 ára stúlkna (4,18 m.) og þrístökki (8,86 m.) Daði Fannar Sverrisson vann silfurverðlaun í spjótkasti 16-17 ára stráka (51,39 m.) og bronsverðlaun í kringlukasti (37,25 m.) og grindahlaupi.
Daði Þór Jóhannsson varð þriðji í þrístökki 12 ára pilta (9,58 m.) og Mikael Máni Freysson í sama sæti í hástökki pilta 14 ára (1,56 m.). Sveit UÍA varð í öðru sæti í 4x100 metra boðhlaupi pilta og UÍA-eldibrandar var þriðja í boðhlaupi 11 ára stúlkna.
Hubert Henryk Wojtas vann fern verðlaun í sundi í flokki 11-12 ára stráka. Hann varð annar í 100 metra bringusundi (1:58,14 mín.), og þriðji í 50 metra skriðsundi (38,41 sek.), 100 metra skriðsundi (1:29,82 sek.) og 50 metra bringusundi (53,83 sek.).
Kamilla Marin Björgvinsdóttir vann þrenn verðlaun í sundi 11-12 ára stúlkna. Hún varð önnur í 50 metra bringusundi (1:47,77 mín.) og þriðja í 100 metra fjórsundi (1:35,05 mín.) og 100 metra skriðsundi (1:22,49 mín.). Í sama flokki varð Eva Dröfn Jónsdóttir þriðja í 50 metra baksundi (44,01 sek.)
UÍA átti leikmenn í liðum sem náðu góðum árangri í boltaíþróttum. Air vann körfuknattleik stráka 17-18 ára, Valsskvísur urðu í öðru sæti í flokki 15-16 ára stelpna og Rauðrófurnar í flokki 11-12 ára stráka eftir að hafa tapað úrslitaleiknum í æsilegri vítaspyrnukeppni.
Kristín Embla Guðjónsdóttir vann gullverðlaun í flokki stelpna 11-12 ára í glímu.
Ólafur Tryggvi Þorsteinsson varð unglingalandsmótsmeistari í 14-15 ára unglingaflokki í mótorkrossi og Kári Tómasson komst á verðlaunapall í 85 cc flokki.
Mikael Máni Freysson var eini keppandi UÍA í starfsíþróttum, sem voru á dagskrá Unglingalandsmót í fyrsta sinn. Máni varð annar í stafsetningu, gerði fjórar villur.
Í flokki 15-18 ára í skák varð Nökkvi Jarl Óskarsson í öðru sæti og Ásmundur Hrafn Magnússon í þriðja sæti.