UÍA á fundi með gestum frá Rúnavík í Færeyjum
Formaður UÍA var meðal þeirra sem sátu fundi með þriggja manna sendinefnd frá Rúnavík í Færeyjum, vinabæ Fljótsdalshéraðs sem voru þar í heimsókn fyrir skemmstu.
Á fundinum var meðal annars rætt hugsanlegt samstarf á milli svæðanna á sviði ungmenna- og íþróttamála. Möguleikar eru til dæmis fyrir hendi á æfinga- og keppnisferðum eða annars konar viðburðum. Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn var þá nýafstaðin og kynnt fyrir Færeyingunum auk Sumarhátíðar UÍA. Í Færeyjum eru til dæmis engar golfbrautir „aðeins teigur og síðan hola,“ eins og sagt var í gamni á fundinum.
Í Rúnavík er eitt sterkasta knattspyrnulið Færeyja og spilaði það meðal annars við enska úrvalsdeildarliðið Fulham í forkeppni Evrópudeildarinnar í fyrra. Mikil handboltahefð er þar og róður stundaður af miklu kappi, grein sem ekki fyrirfinnst á Íslandi nema í líkamsræktarstöðum og á sjómannadaginn.
Í fyrra tóku keppendur frá Sandavógi í Færeyjum, vinabæ Fjarðabyggðar, þátt í strandblakskeppni Sumarhátíðarinnar en þeir voru þá staddir í Neskaupstað í Fjarðabyggð. Á níunda áratugnum tók hópur Færeyinga þátt í Sumarhátíð UÍA.