BN varði Launaflsbikarinn
Boltafélag Norðfjarðar vann Launaflsbikarinn, bikarkeppni UÍA og Launafls í knattspyrnu, annað árið í röð. Þrjú lið áttu möguleika á sigri fyrir síðustu umferðina sem fram fór í gærkvöldi.
Aðeins munaði einu stigi á BN og Ungmennafélagið Borgarfjarðar fyrir leiki gærkvöldsins. BN heimsótti þá Þrist sem hafði óvænt áhrif á lokabaráttuna með því að vinna sinn fyrsta leik í fjögur ár þegar það vann UMFB á Borgarfirði í Bræðsluleiknum um helgina.
Þristarmenn virtust enn vera að fagna sigrinum á Borgarfirðinum því eftir sex mínútur voru þeir komnir yfir. Valgeir Valgeirsson kom BN yfir strax á annarri mínútu og Karl Rúnar Róbertsson skoraði aftir á sjöttu mínútunni. Bæði mörkin komu eftir að vörn Þristar mistókst að koma fyrirgjöfum í burtu.
Rósmundur Jóhannsson minnkaði muninn fyrir Þrist eftir stungusendingu á tólftu mínútu. Alexander Freyr Sigurðsson skoraði síðan glæsilegasta mark leiksins skömmu síðar þegar hann tók boltann á lofti við vinstra vítateigshornið og smellti honum í fjærhornið, stöngin – stöngin – inn. Því miður fyrir hann var markið dæmt af vegna rangstöðu. Hann var þó eftir á ferðinni í uppbótartíma og skoraði þriðja mark BN sem stóð með pálmann í höndunum.
Þristarmenn voru samt ekki hættir og slapp Rósmundur aftur í gegnum vörn BN og minnkaði muninn í 2-3. Eftir það sóttu Þristarmenn nokkuð og fengu fín færi á að skora.
Það var hins vegar markahrókurinn Bjarmi Sæmundsson sem tryggði stjórn Norðfirðinga á leiknum á ný með mark úr vítaspyrnu, eftir að brotið var á honum, á 73. mínútu. Hann innsiglaði síðan 2-5 sigurinn með laglegu skoti upp í vinkilinn tveimur mínútum fyrir leikslok.
Borgfirðingar gerðu það sem þeir gátu með 5-0 sigri á Hrafnkeli/Neista á sínum heimavelli þar sem Jón Bragi Ásgrímsson skoraði tvö mörk en það dugði ekki til. Hrafnkell/Neisti var þriðja liðið sem átti möguleika á bikarnum fyrir lokaumferðina.
Boltafélagið varði þar með titilinn sem það vann loks í fyrr eftir margra ára baráttu. Björn Ágúst Olsen Sigurðsson, BN, var valinn besti leikmaðurinn og Bjarmi Sæmundsson, BN, varð markahæstur með sex mörk.