Tólf á Gautaborgarleikunum
Tólf keppendur frá UÍA tóku nýverið þátt í frjálsíþróttakeppninni Gautaborgarleikunum í Svíþjóð. Þjálfari hópsins segir árangurinn almennt hafa verið góðan.
„Aðalmarkmiðið voru persónulegar bætingar og flestir bættu sig í einhverri grein,“ segir þjálfarinn Lovísa Hreinsdóttir sem fór út með hópnum ásamt Mekkínu Bjarnadóttur. Leikarnir fóru fram á hinum glæsilega Ullevi-leikvangi sömu helgi og Sumarhátíð UÍA.
Mestu framfarirnar sýndi Einar Bjarni Helgason sem bætti sig um hálfan metra í langstökki og stökk 5,07 metra í úrslitum. Hann var eini keppandinn sem komst í úrslit.
Lovísa segir hópinn hafa verið samheldinn og góðan. Tíminn í Gautaborg var nýttur vel, meðal annars farið í Liseborg-tívolíið sem er hið stærsta á Norðurlöndum. Þótt verðlaunin hafi vantað í frjálsíþróttakeppninni skiluðu þau sér í skemmtigarðinum, meðal annars í formi meters hárra bangsa.
Mynd: Hópurinn í Gautaborg, frá vinstri: Erla Jónsdóttir, Aðalheiður Sjöfn Helgadóttir, Mikael Máni Freysson, Eyrún Gunnlaugsdóttir, Atli Geir Sverrisson, Erla Gunnlaugsdóttir, Daði Fannar Sverrisson, Auðbjörg Hulda Þórarinsdóttir, Atli Pálmar Snorrason, Einar Bjarni Helgason, Örvar Guðnason, Sigríður Tinna Sveinbjörnsdóttir.