Opnað fyrir skráningar á Unglingalandsmót

Opnað hefur verið fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Skráningafrestur er til miðnættis sunnudagsins 29. júlí.

Keppnisgjaldið er 6.000 krónur á keppanda, óháð greinafjölda og er greitt annað hvort á mótsstað eða með greiðslukorti í lok skráningarinnar á netinu.

Fjölmennt lið var frá UÍA í fyrra enda mótið haldið á Egilsstöðum. Það er stefna UÍA að vera vel sýnilegt á Selfossi og því er minnt á að lokafrestur til að panta keppnisbúninga og galla merkta sambandinu, sem eiga að verða tilbúnir á mótinu, er á morgun föstudaginn 13. júlí.

Einn aðili hefur þegar boðað komu sína á Selfoss en það er lukkudýrið Sprettur Sporlangi sem flutti eftirfarandi vísu á síðasta þingi UMFÍ.

Á landsmóti er líf og fjör
leikur, söngur gaman.
Börnin öll með bros á vör
best að vera saman.

Sællegur og sáttur kveð,
segi bless með kossi.
Hlaupum, hoppum allir með
hittumst á Selfossi.

Nánari upplýsingar má finna á www.ulm.is.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ