Sumarhátíð 2012: Keppni 16 ára og eldri færð til og knattspyrnumótið fellur niður
Ákveðið hefur verið að færa keppni sextán ára og eldri frá föstudegi til laugardags og sunnudags. Ekki verður keppt í knattspyrnu á Sumarhátíð 2012. Ekki var næg skráning í þessar greinar fyrir auglýstan skráningarfrest til að hægt væri að stefna á óbreytta dagskrá.
Keppendur 16 ára og eldri í frjálsíþróttum munu keppa með 14-15 ára á laugardag og sunnudag. Með þessu fæst aukið hagræði þar sem starfsfólk nýtist til dæmis betur. Yngri keppendur fá fyrirmyndir og eldri keppendur keppa fyrir framan fleiri áhorfendur en verið hafa á föstudagskvöldunum. Þessi ráðstöfun var rædd og samþykkt innan frjálsíþróttaráðs UÍA í gærkvöldi.
Ekkert lið barst í knattspyrnukeppnina sem vera átti á laugardag áður en lokað var fyrir skráningar á miðnætti á fimmtudegi. Ekki eru nógu margir einstaklingar skráðir til að hægt sé að mynda lið til keppni.
Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar ráðstafanir kunna að hafa.