Sumarhátið 2012: Fimleikasýning GYS 87
Fimleikahópur eldri borgara frá Danmörku verður með sýningu í íþróttahúsinu á Egilsstöðum klukkan 16:15 á sunnudag. Von er á glæsilegri sýningu sem verður lokapunktur Sumarhátíðar UÍA.
GYS87 er fimleikahópur sem hélt áfram að æfa saman eftir þátttöku á fimleikahátíðinni Gymnastrada árið 1987 en þaðan kemur nafn hópsins GYS87.
GYS87 samanstendur af eldri karlmönnum og konum sem hafa haldið hópinn í 25 ár. Í gegnum árin hafa þau ferðast og sýnt listir sínar vítt og breitt um heiminn í sex heimsálfum.
Fimleikasýningin samanstendur af margskonar æfingum: kvenlegum hreyfingum, karlmannlegum kraftaæfingum, paraæfingum og samvinnu svo eitthvað sé nefnt. Sýningin fær mikinn innblástur af vel valinni tónlist sem gefur mikla upplyftingu og innlifun.
Aðgangur að sýningunni er ókeypis og öllum opinn.