Fjölskyldudagur og rathlaup í Sænautaseli á sunnudag
UÍA, Austurför og sveitarfélagið Fljótsdalshérað standa fyrir rathlaupi og fjölskyldudegi í Sænautaseli í Jökuldalsheiði á sunnudag. Enn er opið fyrir skráningar.
Engin skráning barst fyrir tilsettan tíma í 24ra tíma hlaupið svo það hefur verið fellt niður. Tíu tíma hlaupið hefur verið stytt niður í átta tíma þannig fólk geti notið kosningavökunnar og verður ræst klukkan 10:00 á sunnudagsmorgun.
Fjölskyldurathlaup verður ræst klukkan tólf á hádegi. Gert er ráð fyrir að það taki um fjóra tíma. Þá verður fjölskyldudagur í Sænautaseli, hægt verður að skoða dýrin og sigla á hjólabátum. Kjötsúpa verður í boði í selinu.
Enn er opið fyrir skráningar í hlaupin tvö. Tekið er á móti þeim á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 471-1353. Miðað er við 2-3 í liði í átta tíma hlaupið en 3-5 í liði í fjölskylduhlaupið.
Einni klukkustund fyrir ræsingu fá liðin í hendur kort með ámerktum punktum. Hver punktur á kortinu stendur fyrir stað sem auðkenndur er með flaggi og þar er að finna gatara/stimpil sem liðin nota til að gata/stimpla á þar til gert liðsblað og staðfesta þannig komu sína á staðinn.
Staðirnir gefa mis mörg stig eftir því hversu erfitt er að finna eða komast á viðkomandi stað og sigrar það lið sem nær flestum stigum. Liðin ákveða fyrirfram hvaða leið þau ætla að fara og hvaða punkta þau ætla að sækja og gefa umsjónarmanni keppninnar þá áætlun upp. Ekki þarf að fylgja áætluninni nákvæmlega, en öryggis keppenda vegna er gott að fylgja henni sem mest.
Keppni hefst og lýkur við Sænautasel og þar verður bækistöð fyrir keppendur og starfsfólk. Þangað geta keppendur komið og gætt sér á kraftmikilli kjötsúpu á meðan á rathlaupinu stendur.