Gestabókin komin á Sandfellið
Starfsmenn UÍA fóru í gær með gestabók upp á Sandfell í Fáskrúðsfirði sem er fjall UÍA í verkefni UMFÍ Fjölskyldan á fjallið 2012.Sandfellið er sunnan megin í Fáskrúðsfirði og er farið upp með Víkurgerðisá inn í Fleinsdal og gengið upp á fjallið að suðaustanverðu. Fjallið er líparítfjall og jarðfræðilega einstakt.
Gönguleiðin er stikuð. Fyrsti hluti leiðarinnar inn í botn Fleinsdals er gróinn og ekki mjög brattur en leiðin á fjallið er brattari og erfiðari, einkum fyrir óvana. Áætlaður uppgöngutími er 2-2,5 tímar.
Framkvæmdastýra UÍA leiddi starfsmannagönguna og hefði sennilega farið á toppinn á einum og hálfum tíma hefði formaðurinn ekki verið með í för og tafið. Eftir að hafa fengið nóg af sniglinum stakk framkvæmdastýran af á endasprettinum og fór ein á tindinn.
Að hennar sögn er útsýnið af toppnum ægifagurt og sést bæði inn í þorpið í Fáskrúðsfirði og út fjörðinn að Skrúði. Útsýnið úr hlíðinni er líka fagurt.
Bókin fór samt upp og er tilbúin fyrir gönguvikuna „Á fætur í Fjarðabyggð“ sem hefst á morgun en hún byrjar einmitt á göngu á Sandfell.