Frjálsíþróttaskólinn dagur 4: Fimleikar og fjör

Dagskráin í frjálsíþróttaskólanum var fjölbreytt á fjórða degi eins og hina dagana. Trampólínið var prófað í íþróttahúsinu, táslurnar reknar í sandinn og uppskerumótið undirbúið.

Lillý Viðars var gestakennarinn á fyrri æfingu dagsins en hún þjálfaði hástökk á meðan Hildur fór dýpra í langstökkið. Í báðum greinunum verður keppt á uppskerumótinu á morgun.

Heiður Vigfúsdóttir var Hildi til aðstoðar á æfingunni eftir hádegið. Æfðar voru skiptingar í boðhlaupum en þar þarf að vanda til verka til að hlaupið teljist gilt. Þá fengu krakkarnir frjálsan tíma til að æfa sig í þeim greinum sem þau keppa í á morgun.

Alla vikuna hafa græjurnar frá fimleikadeild Hattar staðið upp í íþróttahúsinu en ekki má hver sem er prófa þær. Það mátti eftir kaffið undir vökulu auga Auðar Völu Gunnarsdóttir, yfirþjálfara fimleikadeildar Hattar. Krakkarnir fóru á stóra trampólínið og notuðu það til að spyrna sér í skrúfur og heljarstökk.

Fyrir kvöldmat var líka farið í Bjarnardal þar sem Hera Ármannsdóttir og Kristbjörg Jónasdóttir, frumkvöðlar strandblaksins á Egilsstöðum, kenndu undirstöðuatriðin í strandblaki. Norðfirðingunum þurfti reyndar lítið að kenna enda Íslandsmeistarar í hópnum.

Eftir kvöldmatinn var tæknifundur þar sem skoðaðar voru upptökur af hástökkinu um morguninn. Hildur fór þar yfir smáatriðin sem þarf að fínpússa sem draga má saman í setninguna „upp með rassinn!“ sem reynist oft þungur þegar farið er yfir rána.

Að lokum var slakað á í sundlauginni enda er búist við harðri keppni á morgun. Uppskerumótið hefst klukkan 9:30 á Vilhjálmsvelli. Foreldrar og aðstandendur eru sérstaklega hvattir til að mæta og hvetja nemendurna.

UÍA Twitterinn.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok