Frjálsíþróttaskólinn dagur 4: Fimleikar og fjör
Dagskráin í frjálsíþróttaskólanum var fjölbreytt á fjórða degi eins og hina dagana. Trampólínið var prófað í íþróttahúsinu, táslurnar reknar í sandinn og uppskerumótið undirbúið.
Lillý Viðars var gestakennarinn á fyrri æfingu dagsins en hún þjálfaði hástökk á meðan Hildur fór dýpra í langstökkið. Í báðum greinunum verður keppt á uppskerumótinu á morgun.
Heiður Vigfúsdóttir var Hildi til aðstoðar á æfingunni eftir hádegið. Æfðar voru skiptingar í boðhlaupum en þar þarf að vanda til verka til að hlaupið teljist gilt. Þá fengu krakkarnir frjálsan tíma til að æfa sig í þeim greinum sem þau keppa í á morgun.
Alla vikuna hafa græjurnar frá fimleikadeild Hattar staðið upp í íþróttahúsinu en ekki má hver sem er prófa þær. Það mátti eftir kaffið undir vökulu auga Auðar Völu Gunnarsdóttir, yfirþjálfara fimleikadeildar Hattar. Krakkarnir fóru á stóra trampólínið og notuðu það til að spyrna sér í skrúfur og heljarstökk.
Fyrir kvöldmat var líka farið í Bjarnardal þar sem Hera Ármannsdóttir og Kristbjörg Jónasdóttir, frumkvöðlar strandblaksins á Egilsstöðum, kenndu undirstöðuatriðin í strandblaki. Norðfirðingunum þurfti reyndar lítið að kenna enda Íslandsmeistarar í hópnum.
Eftir kvöldmatinn var tæknifundur þar sem skoðaðar voru upptökur af hástökkinu um morguninn. Hildur fór þar yfir smáatriðin sem þarf að fínpússa sem draga má saman í setninguna „upp með rassinn!“ sem reynist oft þungur þegar farið er yfir rána.
Að lokum var slakað á í sundlauginni enda er búist við harðri keppni á morgun. Uppskerumótið hefst klukkan 9:30 á Vilhjálmsvelli. Foreldrar og aðstandendur eru sérstaklega hvattir til að mæta og hvetja nemendurna.