Frjálsíþróttaskólinn dagur 3: Hjólabátar og hestar á Hallormsstað
Þriðji dagur Frjálsíþróttaskólans er að baki. Dagskráin var brotin upp eftir hádegið þar sem farið var með hópinn inn í Hallormsstað. Dagurinn reyndi verulega á því hann hófst með látum í morgun.
Liðinu var stefnt út á Vilhjálsmvöll rétt rúmlega átta í morgun þar sem Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, kennari á Egilsstöðum, tók hópinn í cross camp tíma. Slíkt æði hefur skotið sér niður á Egilsstöðum þar sem stór hópi bæjarbúa vaknar fyrir allar aldir og mætir á æfingar á vellinum.
Síðan tók við hin hefðbundna morgunæfing í frjálsum. Daði Sverrisson var gestakennarinn og kenndi grunnatriðin í sleggjukasti en Hildur þjálfaði nemendurna í kúluvarpi.
Hádegismaturinn var snemma því stefnan var tekin á Hallormsstað. Þar var hópnum skipt í tvennt. Annars var farið í klukkustundar langa hestaferð upp frá Hússtjórnarskólanum, hins vegar á báta í Atlavík.
Eftir kaffi var ratleikur í Trjásafninu þar sem leysa þurfti ýmis verkefni á um tuttugu stöðvum. Það gekk almennt vel en leikurinn var krefjandi eins og fleiri verkefni vikunnar. Sumir voru því gríðarlega þreyttir þegar komið var aftur í Egilsstaði um kvöldmatarleytið. Áður en farið var úr skóginum var samt slegið upp lítilli grillveislu með sykurpúðum.
Ekki var allt búið enn. Eftir kvöldmatinn var farið í íþróttahúsi þar sem íþróttafræðingarnir Stefán Andri Stefánsson og Viðar Örn Hafsteinsson buðu upp á handbolta og körfubolta. Með Viðari, sem þjálfar meistaraflokk Hattar í körfuknattleik, í för var Andrés Kristleifsson sem leikur með íslenska U-17 ára landsliðinu.