Frjálsíþróttaskólinn dagur 2: Víst er grindahlaup skemmtilegt!
Annar dagur Frjálsíþróttaskóla UMFÍ er að baki. Tvær frjálsíþróttaæfingar voru í boði, kynntar íþróttagreinar sem byrja á bókstafnum B og endað á æsilegri spurningakeppni.
Á fyrstu æfingu morgunsins var æft þrístökk á Vilhjálmsvelli. Hildur skólastýra sýndi þar meðal annars hvernig Vilhjálmur Einarsson stökk þegar hann náði silfurverðlaununum á Ólympíuleikunum í Melbourne. Lillý Viðarsdóttir, íþróttakennari á Egilsstöðum, var gestakennari á morgunæfingunni og kenndi spjótkast.
Elsa Guðný Björgvinsdóttir, hlaupagikkur, var gestaþjálfari á seinni æfingunni en hún kenndi grunnatriðin í grindahlaupi. Hlaupin voru tekin upp og verða skoðuð betur á tæknifundi síðar í vikunni. Sumir voru þar að reyna grindahlaup í fyrsta sinn og komust að þeirri niðurstöðu að það væri víst skemmtilegt! Hildur kenndi herkænskuna að baki lengri hlaupum á meðan.
Tvær íþróttagreinar voru kynntar í íþróttahúsinu eftir kvöldmat. Sóley Guðmundsdóttir frá Íþróttafélaginu Örvari bauð nemendunum öllum í boccia. Stefán Bogi Sveinsson var þar einnig til aðstoðar en hópnum var þrískipt. Þórunn Hálfdánardóttir frá Hallormsstað mætti síðan með badmintonspaðann.
Stefán Bogi mætti aftur eftir kvöldmatinn með handrit að spurningakeppninni Innsvari. Þar var hart barist, bæði um sigurinn og svarréttinn en keppendur þurftu að hlaupa úr sætum sínum og grípa banana (ekki bjöllu) til að fá að svara.
Twitter UÍA með uppfærslum dagsins.
Myndbönd dagsins:
Hildur ræðir afrek Vilhjálms og grunnatriðin í þrístökki
Leikur liðs 1 í Innsvari: Heiða Elísabet Gunnarsdóttir
Leikur liðs 2 í Innsvari: Jóhanna Malen Skúladóttir
Leikur liðs 3 í Innsvari: Eyrún Sól Einarsdóttir