Maraþonboðhlaup FRÍ í ,,sumarblíðu"

14 vaskir hlauparar létu ekki rigningu, rok og kulda á sig fá og mættu galvaskir í Maraþonboðhlaup FRÍ sem haldið var á Fljótsdalshéraði í gær. Auk þess var hlaupið í Reykjavík, á Akureyri og á Ísafirði en Maraþonboðhlaupið er fjáröflun fyrir frjálsíþróttafólkið sem keppir á Ólympíuleikunum í London fyrir Íslands hönd.

Hlaupið var hálft maraþon (21,097 km) og var bæði keppt í einstaklings- og liðakeppni þar sem allt að sjö hlauparar máttu vera saman í liði. Tvö lið voru skráð til leiks, annars vegar UMF Þristur frá Hallormsstað og hins vegar Saumó frá Egilsstöðum. Einn keppandi var í einstaklingskeppninni, það var Jón Jónsson sem gerði sér lítið fyrir og kom í mark á undan báðum liðunum á tímanum 1:46:53. Þristurinn fór vegalengdina á tímanum 1:49:08 og Saumó á 2:03:06.

Eftir hlaup var dregið um glæsilega happdrættisvinninga frá fyrirtækjum á svæðinu og fór enginn tómhentur heim.

Frjálsíþróttaráð UÍA sá um framkvæmd hlaupsins hér fyrir austan. Eftirtalin fyrirtæki gáfu happdrættisvinninga og færir ráðið þeim bestu þakkir fyrir: Gistihúsið á Egilsstöðum, Perlusól, Snyrtistofan Alda, Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum, Nuddstofa Hlífar, Kaffi Egilsstaðir, Stjörnuhár, Caró og UÍA.

Hér á myndinni til hægri má sjá glæsilega skiptingu hjá liði Þristar og á myndinni til vinstri er hlaupagikkurinn Jón Jónsson að renna yfir marklínuna, veðurbarinn eftir hálft maraþon.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok