Maraþonboðhlaup FRÍ í ,,sumarblíðu"
14 vaskir hlauparar létu ekki rigningu, rok og kulda á sig fá og mættu galvaskir í Maraþonboðhlaup FRÍ sem haldið var á Fljótsdalshéraði í gær. Auk þess var hlaupið í Reykjavík, á Akureyri og á Ísafirði en Maraþonboðhlaupið er fjáröflun fyrir frjálsíþróttafólkið sem keppir á Ólympíuleikunum í London fyrir Íslands hönd.
Hlaupið var hálft maraþon (21,097 km) og var bæði keppt í einstaklings- og liðakeppni þar sem allt að sjö hlauparar máttu vera saman í liði. Tvö lið voru skráð til leiks, annars vegar UMF Þristur frá Hallormsstað og hins vegar Saumó frá Egilsstöðum. Einn keppandi var í einstaklingskeppninni, það var Jón Jónsson sem gerði sér lítið fyrir og kom í mark á undan báðum liðunum á tímanum 1:46:53. Þristurinn fór vegalengdina á tímanum 1:49:08 og Saumó á 2:03:06.
Eftir hlaup var dregið um glæsilega happdrættisvinninga frá fyrirtækjum á svæðinu og fór enginn tómhentur heim.
Frjálsíþróttaráð UÍA sá um framkvæmd hlaupsins hér fyrir austan. Eftirtalin fyrirtæki gáfu happdrættisvinninga og færir ráðið þeim bestu þakkir fyrir: Gistihúsið á Egilsstöðum, Perlusól, Snyrtistofan Alda, Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum, Nuddstofa Hlífar, Kaffi Egilsstaðir, Stjörnuhár, Caró og UÍA.
Hér á myndinni til hægri má sjá glæsilega skiptingu hjá liði Þristar og á myndinni til vinstri er hlaupagikkurinn Jón Jónsson að renna yfir marklínuna, veðurbarinn eftir hálft maraþon.