Sumarið fer vel af stað hjá frjálsíþróttafólki UÍA

Það er óhætt að segja að sumarstarfið hjá frjálsíþróttaráði UÍA sé hafið af krafti, en síðastliðinn sunnudag fór fram Meistaramót UÍA í frjálsum íþróttum fyrir 11 ára og eldri.

Mótið var haldið á Vilhjálmsvelli og voru aðstæður þar prýðilegar, þegar búið var að moka snjó af langstökksbraut og -gryfju!

Um 30 keppendur frá Hetti, Þristi, Þrótti og Leikni kepptu á mótinu og reyndu þar með sér í kúluvarpi, 60 m hlaupi, langstökki, hástökki og 600/800 m hlaupum.Veitt voru verðlaun fyrir þrjú fyrstu sæti í aldursflokkum stúlkna og pilta 11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára og 16 ára og eldri. Víða var spennandi og skemmtileg keppni og það er ljóst að frjálsíþróttafólk á Austurlandi kemur vel undan vetri og hlakkar til viðburðarríks sumars. Þar er af nógu að taka en mótaröð UÍA og HEF hefst strax í næstu viku.

Fjögur mót eru í mótaröðinni en á þeim reyndu keppendur með sér í all flestum greinum frjálsra íþrótta og safna stigum í gegnum alla mótaröðina. Sex stig eru veitt fyrir 1. sæti, 5 stig fyrir annað sæti og þannig koll af kolli. Þeir hlutskörpustu í hverjum flokki voru verðlaunaðir í lok sumars. Öll mótin fara fram á Vilhjálmsvelli og keppt er í flokkum stúlkna og pilta 11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára og 16 ára og eldri.

Mót í mótaröðinni verða:

30. maí. Kúluvarp, 200 m hlaup, þrístökk.

26. júní. 80/100/110 m grindahlaup, hástökk, spjótkast og 1500 m hlaup.

25. júlí. Langstökk, 80/100 m hlaup, kringlukast og 800 m hlaup.

22. ágúst. Sleggjukast, langstökk, 400 m hlaup og frjálsíþróttaflipp!

Þátttökugjöld á hvert mót er 500 kr óháð greinafjölda.

UÍA þakkar keppendum og starfsfólki á Meistaramóti UÍA kærlega fyrir daginn og hlakkar til að sjá ykkur aftur í næstu viku á fyrsta móti UÍA og HEF.

Úrslit Meistaramótsins má nálgast hér.

Á myndinni hér til hliðar má sjá verðlaunahafa í kúluvarpi stúlkna 12-13 ára; Jóhönnu Malen Skúladóttur, Þristi (2. sæti), Aðalheiði Sjöfn Helgadóttur, Hetti (1. sæti) og Heiðu Elísabetu Gunnarsdóttur, Þrótti (3. sæti).

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ