Taekwondodeild Hattar stofnuð formlega
Í gær var formlegur stofnfundur Taekwondo deild Hattar. Þar með er nokkurra mánaða ferli lokið sem hófst með því að nokkrir foreldrar iðkenda ákváðu í lok síðasta árs, í samvinnu við stjórn Hattar, að stofna taekwondo deild. Á síðasta aðalfundi Hattar var formleg stofnun samþykkt. Kosin var stjórn deildarinnar og eru það eftirtaldir aðilar sem eru í stjórn deildarinnar.
Elfa Sigurðardóttir. Gjaldkeri.
Hjálmar S. Elíesersson. Formaður.
Ingvar Friðriksson. Stjórnarmaður.
Margrét Þóra Gunnarsdóttir. Stjórnarmaður.
Ruth Elfarsdóttir. Ritari.
Deildin hefur notið margvíslegs stuðnings síðustu mánuði. Yfirþjálfari er Írunn Ketilsdóttir, en Írunn er með svarta beltið, 3. dan. Írunn er formaður og yfirþjálfari TKD deildar Ármanns. Pétur Hjartarson, grænt belti, hefur þjálfað í vetur auk Puja Alempur, grænt belti. Deildin fékk síðan á dögunum til sín í heimsókn til að þjálfa, Jón Levy frá Aftureldingu. Jón er landsliðsmaður í Sparring með svart belti. Davíð Þór Sigurðsson, formaður Hattar, hefur stutt dyggilega við stofnun deildarinnar í gegnum allt ferlið.
Í lok apríl tóku fulltrúar deildarinnar á móti veglegum styrk frá Alcoa Fjarðaáli, en styrkurinn verður nýttur til þess að fjárfesta í grunnbúnaði fyrir deildina. Fyrir nýja deild er þessi styrkur mikilvægur til að byggja undir grunnstoðir starfsins, og á Fjarðaál miklar þakkir skildar.
Iðkendur taekwondo deildar Hattar eru tæplega 40 einstaklingar á öllum aldri. Taekwondo er einstaklingsíþrótt sem er æfð í hóp og styrkir einstaklinginn í því að vilja stöðugt gera betur með líkamsþjálfun og aukinnri færni í tækni íþróttarinnar. Í sumar verða haldnar æfingabúðir þar sem bæði reyndir og nýjir krakkar upp að 12 ára aldri, geta tekið þátt í blöndu TKD og ýmissa leikja og æfinga.
Við óskum taekwondoiðkendum á Austurlandi til hamingju með nýju deildina og vonum að hún vaxi og dafni í framtíðinni.