Sérdeildin hampar Bólholtsbikarnum annað árið í röð

Lið Sérdeildarinnar varði titil sinn sem Bólholtsmeistara á æsispennandi úrslitahátíð Bólholtsbikarsins sem fór fram 6. maí í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Þar mættust lið Sérdeildarinnar, Neista, ME og Einherja. En lið Austra sem unnið hafði sér inn keppnisrétt í úrslitum, dró sig úr keppni og Einherji kom í þeirra stað.

Úrslitahátíðin hófst með viðureign ME og Neista, Neistamenn leiddu leikinn og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á ME 62 stig gegn 47.

Sérdeildin lagði lið Einherja að velli 62-51 og tók sér það með stöðu andspænis Neista í úrslitaviðureigninni.

Eftir kærkomið hádegishlé mættust Einherji og ME í leik um bronsið, þar réði leikgleðin ríkjum og leikmenn beggja liða sýndu skemmtileg tilþrif. Ásmundur Hrafn Magnússon í liði ME átti stórleik og skoraði 35 stig.

Áður en úrslitaviðureignin hófst spreyttu fulltrúar liðanna sig í spurningarkeppninni Skotið út í loftið, undir styrkri stjórn Stefáns Boga Sveinssonar Útsvarsjöfurs. Í keppninni, sem reyndi á visku keppenda, leikhæfileika og öryggi í vítaskotum, mættust tvö firna árennileg lið. Annars vegar lið Stefáns Más Gunnlaugssonar Einherja, Evu Ránar Ragnarsdóttur Neista og Valgeirs Eyþórssonar ME og hinsvegar lið Erlings Guðjónssonar SE/Ásins, Sigurðar Jakobssonar, ME og Sigurdórs Sigvaldasonar Sérdeildinni. Liðin skiptust á að leiða keppnina en lið Stefáns, Evu og Valgeirs seig framúr á lokasprettinum og hafði sigur. Þar munaði meðal annars um, vel útfærða leikræna túlkun Evu Ránar á körfuknattleikskappanum Larry Bird.

Það ríkti spenna meðal keppenda jafnt sem áhorfenda þegar kom að úrslitaviðureigninni, enda liðin sem þar mættust bæði sterk og tilbúin að gera fullt tilkall til bikarsins góða. Leikurinn allur bar þess glöggt vitni og varð jafn og spennandi og hart barist um hvern bolta. Sérdeildin hafði yfirhöndina að stærstum hluta í leiknum en lið Neista fylgdi þeim fast eftir og var á tímabili, meðal annars í síðasta leikhluta, yfir. Sérdeildin spýtti þá í lófana og landaði sigri við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna 54-49. Viggó Skúlason var stigahæstur í liði Sérdeildarinnar með 15 stig en Neistamaðurinn Óskar Ragnarsson átti flest stig í leiknum eða 22.

Sérdeildin hóf því Bólholtsbikarinn á loft öðru sinni, en þeir sigrðu keppnina einnig í fyrra.

Veitt voru verðlaun fyrir Stigakóng keppninnar og þau hlaut Nökkvi Jarl Óskarsson sem setti niður 152 stig, að þessu sinni voru einnig veitt viðurkenning fyrir Stigadrottningu keppninnar en hana hlaut Eva Rán Ragnarsdóttir sem spilaði með Neista í mótinu og skoraði þrjú stig.

Körfuknattleiksráð UÍA þakkar Bólholti, dómurum keppninnar, leikmönnum, áhorfendum og öðrum sem lögðu okkur lið fyrir skemmtilega úrslitahátíð og undankeppni.

 

 

 

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ