UMF Þristur 20 ára."Búningar: Lopahúfa með hjartaþristi". Brot af því besta úr fundargerðum
UMF Þristur fagnaði nú fyrr í vikunni tuttugu ára afmæli sínu. Skömmu fyrir jól, þegar Gunnar okkar Gunnarsson var að skrifa Snæfell, fletti hann í gegnum fundargerðabækur félagsins. Hér er brot af því sem skemmti honum mest við þann lestur. Flest atriðin snúa að árangri, eða ekki árangri, knattspyrnuliðsins. Þessi atriði endurspegla samt líka sögu. Sögu af samfélagsbreytingunum, baráttunni fyrir að halda sjó og viljanum til að vera með.
2. fundur 28. apríl 1992 "Birni Hólm var falið að útvega félaginu kennitölu. Og vegna þess að kosinn gjaldkeri hefur ekki aldur til að hafa ávísanahefti var honum einnig falið að sækja um ávísanareikning fyrir féalgið og gegna stöðu gjaldkera."
Opinn félagsfundur 1. júní 1992 "Knattspyrnudeild Þristar: Komnir 17 félagar. Arnar Karl sagði að þeir teldu sig svo góða að þeir þyrftu ekki þjálfara, en ráða lækni í staðinn. Búningar: Lopahúfa með hjartaþristi!"
Aðalfundur 17. mars 1993 "Knattspyrnulið UMF Þristar keppti í sumar sem leið, gengi þess var svona upp og niður aðallega þó niður."
Stjórnarfundur 16. apríl 1993 "Utan dagskrár: Stjórnin gaf sér smá tíma í að ræða um fjölda funda og fundargerða frá síðasta ári. Ekki alveg ljóst hvar sumar fundargerðirnar eru."
Aðalfundur 9. mars 1994 "Knattspyrnulið UMF Þrists keppti í Bikarkeppni UÍA í fyrra og var gengi þess mjög lélegt. Áskroun frá UÍA til minni félaga að vera ekki að keppa ef þau geta ekki komið með 11 leikmenn. Liðið í fyrra var yfirleitt með færri en 11. Þetta hefur verið rætt og niðurstaðan er sú að þetta geti ekki gengið nema að sameinast öðru félagi. Huginn í Fellabæ hefur haft samband og þeir hafa áhuga."
Aðalfundur 9. mars 1995 "Hugmynd kom frá Jónínu um að panta bara efni og strákarnir myndu sauma búningana (körfubolta) í handavinnu. Þessi hugmynd fékk dræmar undirtektir eiginlega bara púuð niður."
Stjórnarfundur 5. mars 1996 "Mættir: Þórarinn R. og Björn H. (forföll boðuð v/ funda, vinnu, lasleika, einn svaf yfir sig.)
Aðalfundur 12. mars 1996 "Árangurinn á Sumarhátíðinni verður að teljast glæsilegur en þar varð félagið í 2. sæti í eldri flokki og 5. sæti í yngri flokki. Vildi Þórarinn meina að þessi góði árangur væri ekki síst að þakka almennri þáttöku og munaði ekki minnst um þátttöku kvennasveitarinnar í 4x100 m boðhlaupinu en í sveitinni voru stúlkur á ýmsum aldri!"
Aðalfundur 25. mars 1998 "Nokkuð var rætt um hið frænka knattspyrnulið okkar. Menn voru ánægðir með framgöngu þeirra og hvað þeir voru duglegir að skipuleggja sjálfir vinnu sína í liðinu. Ákveðið var að leita til þeirra með það, á hvern hátt félagið gæti stutt við bakið á þeim. Þeir sýndu það og sönnuðu að íþróttir eru til þess að vera með, en ekki til að vinna."
Aðalfundur 4. maí 2000 "Formaður taldi að fótboltaliðið væri Íslandsmeistarar í tapi og hárri markatölu."
Aðalfundur 15. apríl 2002 "Aðalfundur Þristar vísar því til komandi stjóranar að hún kynni sér alla þá kosti sem varða samvinnu og hugsanlega sameiningu við annað félag sem getur orðið til þess að vinna málum ungmennafélagsins brautargengi. Tillögur þessa efnis verða lagðar fyrir framhaldsaðalfund í upphafi næsta vetrar."
Árskýrsla Þristar lögð frá á aðalfundi 2009. "Þristur er stolt af því að vera hvoru tveggja köftugt og krúttlegt ungmennafélag"
Stjórnarfundur 31. ágúst 2010 "3. Skógarskokk. Hildur sagðist vilja að það væri gert með stæl eða því sleppt." "5. Stjórn er sammála um að skila grasvellinum sem félagið "á" og er neðan við skólann. Hann er ekkert notaður og er aðallega til vandræða og af honum eru engin not nema til að losna við peninga í bensín við slátt á grasinu á honum." "6. Formaður. Enginn vill taka þetta "skítadjobb" að sér og verður að reina að finna einhvern sem er nógu vitlaus til að gefa kost á sér í það."
Árskýrsla Þristar lögð fram á aðalfundi 20. mars 2012. "Ekkert félag er sterkara en baklandið sem það hefur. Okkar bakland er í öndurnarvél og spurning hvenær kippt verður úr sambandi. En það er hnoðað og það er hringt og það er blásið og það er hringt enn meira. Og það reynist vera lífsmark eftir allt.
--
Formenn Þristar Jónína Zophoníasdóttir 1992-1995 Þórarinn Rögnvaldsson 1995-2000 Ingólfur Friðriksson 2000-2003 Gunnar Gunnarsson 2003-2007 Hildur Bergsdóttir 2007-2011 Bjarki Sigurðsson 2011-