Fjarðaálsmót í Fjarðabyggðarhöll
Fjarðaálsmót yngri flokka Fjarðabyggðar er nú haldið í fjórða sinn og eins og venjulega er þetta mót fyrir alla aldursflokka frá 7. flokki til 3. flokks. Mótin eru haldin fjórar helgar í röð það fyrst 21. og 22. apríl sem er fyrir 3. flokk karla og kvenna, það næsta er helgina 28. og 29. apríl sem er fyrir 4. flokk karla og kvenna, helgina 5. og 6. maí verður mót fyrir 5. flokk karla og kvenna og að endingu er svo mót fyrir 6. og 7. flokk karla og kvenna laugardaginn 12. maí.
Í ár er útlit fyrir að mótin verði mun stærri en þau hafa verið hingað til. Reikna má með um 8 – 900 keppendum auk þjálfara, liðstjóra og annarra fylgifiska þannig að í heildina gæti þetta talið um 1.200 manns. Til að mynda er 3. flokks mótið fullt en 13 lið taka þátt í því frá norður- og austurlandi og mótið hjá 4. flokki karla er að fyllast en þó er enn pláss í mótið hjá 4. flokki kvenna þá eru nokkur laus pláss á 5. flokks mótið og skráningar eru byrjaðar á síðasta mótið sem er fyrir 6. og 7. flokk sem verður þann 12. maí.
Mótin hafa frá upphafi heitið Fjarðaálsmót og er aðkoma Alcoa myndarleg sem sér til þess að allir þátttakendur fái gjafir auk þátttökupenings eða verðlaunapenings og grillaðar pylsur í mótslok.
Yngriflokkar Fjarðabyggðar hafa einbeitt sér að því að fá lið frá austur- og norðurlandi á þetta mót og virðist það vera að skila sér núna. Einnig má til gamans geta að lið af suðvetur horninu hafa sent inn fyrirspurnir og hefur eitt lið þaðan, ÍR staðfest komu sína í ár.