Helgi og Hreinn gullmerkjahafar ÍSÍ

Helgi Sigurðsson og Hreinn Halldórsson voru, á Sambandsþingi UÍA, sæmdir gullmerki ÍSÍ fyrir ötul störf í þágu íþróttalífs jafnt í fjórðungum sem á landsvísu.

Helgi Sigurðsson var formaður Hattar til margra ára og afar virkur víða í starfi hreyfingarinnar. Hann sat meðal annars í stjórn ÍSÍ um tíma og var þar UÍA mikilvægur málsvari.

Hreinn hefur löngum verið frjálsíþróttafólki UÍA, og í raun frjálsíþróttafóki um allt land, haukur í horni. Hreinn hefur árum saman komið að framkvæmd flestra frjálsíþróttamóta sem UÍA hefur staðið fyrir og einnig verið liðtækur við þjálfun. Hreinn sat sem fulltrúi UÍA í mótanefnd FRÍ um tíma auk þess að eiga sæti í úthlutunarnefnd Spretts Afrekssjóðs UÍA og Alcoa.

Garðar Svansson fulltrúi ÍSÍ veitti viðurkenningarnar og ávarpaði þingið. Garðar fagnaði því góða íþróttastarfi sem unnið er á Austurlandi, en hvatti jafnframt þinggesti til að láta til sín taka og í sér heyrast innan ÍSÍ. Garðar benti réttilega á að verulega hallar á hlut landsbyggðarinnar í stjórnunar- og nefndarstöðum innan samtakanna. Héraðssamtök á landsbyggðinni þurfi að beita sér að krafti fyrir breytingum á þessu sviði, enda ríkir hagsmunir í húfi.

Garðar kom færandi hendi og afhenti Elínu Rán Björnsdóttur Íþróttabókina, sem kom út nýverið í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ. Í bókinni er saga samtakanna og íþróttalífs á Íslandi rakin í máli og myndum.

Þökkum við ÍSÍ kærlega fyrir bókina góðu sem ugglaust verður mikið lesin. Og óskum gullmerkjahöfum ÍSÍ innilega til hamingju með viðurkenninguna og þökkum þeim ötult starf í þágu íþróttamála á Austurlandi.

Hér á efri myndinni til hliðar má sjá Elínu Rán Björnsdóttur formann UÍA og Garðar Svansson fulltrúa ÍSÍ ásamt Hreini Halldórssyni og Auði Völu Gunnarsdóttur, eiginkonu Helga, sem veitti gullmerkinu viðtöku fyrir hans hönd.

Á neðri myndinni má sjá Garðar afhenda Elínu Íþróttabókina.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ