Starfs- og gullmerki UMFÍ veitt á Sambandsþingi UÍA
Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ heiðraði gesti Sambandsþings UÍA með nærveru sinni og sæmdi þrjá einstaklinga starfsmerki UMFÍ og einn gullmerki UMFÍ.
Starfsmerki UMFÍ hlutu:
Björn Hafþór Guðmundsson sem sat í ULM nefnd 2011 og í Landmótsnefnd 2001. Björn Hafþór var afar virkur í starfi Súlunnar á Stöðvarfirði áratugum saman, sat í stjórn og í frjálsíþróttaráði UÍA og hefufr löngum verið öflugur sjálfboðaliði við undirbúning og framkvæmd Sumarhátíða UÍA. Björn Hafþór var á yngri árum liðtækur knattspyrnumaður og var þekktur fyrir sérstæðar utanfótarspyrnur sem enginn hefur geta leikið eftir hvorki fyrr né síðar.
Gunnar Jónsson sem lögnum hefur verið virkur í starfi UMF Austra og verið burðarás í sundstarfi Austra sem og UÍA. Gunnar var sérgreinastjóri í sundi á ULM og leysti það verkefni með miklum sóma. Gunnar gengdi stöðu gjaldkera í stjórn UÍA um nokkurra ára skeið og er einatt boðinn og búinn að leggja Sambandinu lið.
Jóhann Tryggvason sem gengdi stöðu formanns UÍA á árunum 2001-2008, sat í varstjórn UMFÍ 2003-2009 og hefur áratugum saman verið leiðandi í skíðadeild Þróttar og skíðaráði UÍA.
Björn Ármann Ólafsson var sæmdur gullmerki UMFÍ, en Björn var formaður UÍA á árunum 1998-2001, var gjaldkeri UMFÍ árum saman. Auk þess hefur hann löngum verið virkur innan frjálsíþróttaráðs UÍA og frjálsíþróttadeildar Hattar. Björn var formaður ULM nefndar og kom að undirbúningi Landsmótsins 2001.
Auk þessa ávarpaði Helga þinggesti og kom meðal annars í ræðu sinni inná hversu glæsilega hefði til tekist við framkvæmd Unglingalandsmóts síðastliðið sumar. Kröftugt sjálfboðaliðastarf hefði þar borið ríkulegan ávöxt og skilað veglegum félags-og mannauði til samfélagsins hér eystra, auk þess að skilja eftir ljúfar og skemmtilegar minningar í hugum ótal fjölskyldna víðsvegar að af landinu sem nutu glaðværðar og gestristni Austfirðinga um verslunarmannahelgina.
Óskum við gull- og starfsmerkjahöfum UMFÍ innilega til hamingju með viðurkenninguna og þökkum þeim kraftmikið starf í þágu ungmenna- og íþróttastarfs í fjórðungnum.
Á myndinni hér til hliðar má sjá starfs- og gullmerkjahafana ásamt Elínu Rán Björnsdóttur formanni UÍA og Helgu Guðrúnu Guðjónsdóttur formanni UMFÍ.