Heiðursfólk heiðrað á Sambandsþingi UÍA
Á 62. Sambandsþingi UÍA sem fór fram í Brúarási 15. apríl voru að vanda veitt starfsmerki UÍA, til einstaklinga sem með ötulu og óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi hafa skipt sköpum í æskulýðs- og íþróttamálum í fjórðungnum.
Í kröftugu og víðfemu héraðsambandi eins og UÍA er enginn hörgull á dugnaðarforkum sem vert er að veita viðurkenningar sem þessar. Starfsmerki UÍA að þessu sinni hlutu:
Aðalsteinn Hákonarson sem hefur starfað vel og lengi innan Ássins. Aðalsteinn hefur þjálfað og keppt í m.a. frjálsum íþróttum, blaki og körfubolta og stóð þétt við bakið á sínum iðkendum og fylgdi þeim eftir í keppnum um allt land. Hann sat í stjórn Ássins um tíma og var jafnframt virkur í frjálsíþróttaráði UÍA. Aðalsteinn keppir enn á Sumarhátíð UÍA og fer þar mikinn.
Auður Vala Gunnarsdóttir hefur verið viðriðin íþróttastarf frá blautu barnsbeini. Hún er og hefur löngum verið máttarstólpi í starfi fimleikadeildar Hattar, verið þar yfirþjáfari og drifið áfram öflugt starf. Hún hugsar vel um sína iðkendur og er þeim góð fyrirmynd. Auður Vala var greinastjóri í fimleikum á ULM síðastliðið sumar og kláraði það verk með stakri prýði eins og annað sem hún tekur sér fyrir hendur.
Elín Rán Björnsdóttir sem er flestum að góðu kunn sem formaður UÍA. Elín lét af embætti á þinginu og stjórn UÍA ákvað, án hennar vitundar að sæma hana starfsmerki. Elín er vel að því komin en hún hefur starfað af elju innan bæði Þristar og Hattar í gegnum tíðina og hefur löngum verið virk í frjálsíþróttastarfi UÍA. Elín tók við formennsku UÍA árið 2008 og hefur sinnt því hlutverki af leikni og samviskusemi.
Halldóra Eyþórsdóttir var potturinn og pannan í starfi Ungmennafélags Jökuldælinga, en er það sameinaði krafta sína með Ungmennafélagunum Vísi og Hróari undir merkjum Ássins árið 1998 tók hún við formennsku þess og gengdi til 2010. Á þessum árum kepptu margir efnilegir krakkar fyrir hönd Ássins sem telfdi jafnan fram stóru og áberandi liði á Sumarhátíð UÍA og víðar.
Margrét Árnadóttir starfaði ötullega að íþrótta og æskulýðsmálum á Norður-Héraði, sat í stjórn Ássins um árabil og hefur í gegnum tíðina verið afar liðtæk við hin ýmsu sjálfboðaliðastörf innan hreyfingarinnar.
Í ár var í fyrsta sinn farin sú leið að veita hjónum saman starfsmerki, tvö slík merki voru veitt að þessu sinni og þau hlutu:
Hreinn Halldórsson ásamt konu sinni Jóhönnu Þorsteinsdóttur. Hreinn hefur verið UÍA innan handar við undirbúning og framkvæmd ótal frjálsíþróttamóta í gegnum tíðina. Auk þess að vera einatt boðinn og búinn að taka að sér, í sjáflboðavinnu þjálfun og leiðsögn við upprennandi frjálsíþróttafólk. Hreinn sat um tíma í mótanefnd FRÍ fyrir hönd UÍA og á nú sæti í úthlutunarnefnd Spretts Afrekssjóðs UÍA og Alcoa.
Jóhanna hefur starfað af natni við hlið manns síns á Sumarhátíðum sem og öðrum frjálsíþróttamótum UÍA í um það bil 30 ár. Segja má að vart sé keppt í kúluvarpi á Vilhjálmsvelli öðruvísi en Jóhanna sitji þar ábúðarfull við ritaraborðið á meðan maður hennar dæmir.
Ágústa Björnsdóttir og Hafsteinn Jónasson. Ágústa hóf störf sín í íþrótta- og æskulýðsmálum á Austurlandi innan Ungmennafélagsins Fram í Hjaltastaðaþinghá og var þar um tíma formaður. Á námsárum sínum tók hún virkan þátt í íþróttastarfi í Alþýðuskólanum á Eiðum. Hún starfaði af krafti í foreldraráðum yngri flokka knattspyrnudeildar Hattar og tók virkan þátt í skipulagningu og framkvæmd beggja landsmótanna sem haldin hafa verið á Egilsstöðum, en hún var fulltrúi Egilsstaða í Landsmótsnefnd árið 2001 og stýrði verðlaunaafhendingum á ULM síðastliðið sumar.
Hafsteinn hefur um árabil verið burðarás í starfi körfuknattleiksdeildar Hattar og verið þar öflugur sjálfboðaliði sem hefur drifið aðra með sér til góðra verka. Hafsteinn var sérgreinastjóri í körfubolta á ULM síðasta sumar og starfaði einnig af krafti við framkvæmd Landsmótsins 2001. Ferill hans í stjórnum hófst þegar hann var sextán ára gamall í Samvirkjafélagi Eiðaþinghár þar sem hann sat í ein átta ár og var gjaldkeri, ritari og formaður. Hafsteinn hefur setið í bæði knattspyrnu- og körfuknattleiksráðum UÍA. Þá sat hann í stjórn Hattar og var þar ritari og síðan formaður.
Óskum við öllu þessu góða fólki hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna og þökkum því fyrir ómetanlegt framlag sitt til íþrótta- og æskulýðsmála á Austurlandi.
Á meðfylgjandi mynd má sjá starfsmerkjahafa UÍA árið 2012 ásamt Hildi Bergsdóttur framkvæmdastýru UÍA.