Helena íþróttamaður UÍA 2011
Helena Kristín Gunnarsdóttir blakkona úr Þrótti var útnefnd íþróttamaður UÍA 2011 á 62. Sambandsþing UÍA sem fram fór í Brúarási í gær.
Helena, sem er tvítug að aldri, hefur stundað íþrótt sína af kappi síðastliðin 10 ár. Helena er einn af máttarstólpum í meistaraflokki Þróttar í blaki, sem vann þrefalt á síðasta ári; Íslands-, bikar og deildarmeistaratitil. Helena hefur spilað með landsliðinu í blaki undanfarin þrjú ár. Var valin í A landslið kvenna á síðustu Smáþjóðarleika, í U 19 ára á Norðurlandamót bæði í blaki og strandblaki. Helena er góð fyrirmynd sem stundar heilbrigt líferni og gefur mikið af sér og er ábyrg og metnaðarfull í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Helena hefur deilt reynslu sinni og þekkingu með yngri blakiðkendum á Norðfirði samhliða því að efla sig sem íþróttamann. Helena var valin íþróttamaður Þróttar og Fjarðabyggðar 2011.
Auk titilsins íþróttamaður UÍA hlaut Helena glæslilegan farand- og eignarbikar og 100.000 kr styrk úr Spretti Afrekssjóði UÍA og Alcoa.
Við óskum Helenu til hamingju með árangurinn og óskum henni áframhaldandi velfarnaðar.