Bjartur 2012 Rathlaup á Jökuldalsheiði
Þó þessa stundina sé vorhretið það eina sem minnir á að sumarið sé námd, þá er undirbúningur á sumarstarfi UÍA hafinn.
Þar er að ýmsu að taka og ljóst að spennandi sumar er framundan. Hér er eitt af þeim verkefnum sem UÍA stendur að í sumar:
Bjartur 2012 Rathlaup í Jökuldalsheiði 30. júní- 1. júlí.
Um er að ræða liðakeppni í þremur flokkum: Fjölskyldurathlaup 4 klst. (3-5 í liði), 10 klst. rathlaup (2-3 í liði), 24 klst. rathlaup (2-3 í liði)
Keppnisfyrirkomulag:
Einni klukkustund fyrir ræsingu fá liðin í hendur kort með ámerktum punktum. Hver punktur á kortinu stendur fyrir stað sem auðkenndur er með flaggi og þar er að finna gatara/stimpil sem liðin nota til að gata/stimpla á þar til gert liðsblað og staðfesta þannig komu sína á staðinn. Staðirnir gefa mis mörg stig eftir því hversu erfitt er að finna eða komast á viðkomandi stað og sigrar það lið sem nær flestum stigum. Liðin ákveða fyrirfram hvaða leið þau ætla að fara og hvaða punkta þau ætla að sækja og gefa umsjónarmanni keppninnar þá áætlun upp. Ekki þarf að fylgja áætluninni nákvæmlega, en öryggis keppenda vegna er gott að fylgja henni sem mest.
Hvert lið fer á sínum hraða og ekki ætlast til þess að liðin séu á hlaupum frekar en þau vilja.
Keppni hefst og lýkur við Sænautasel, og þar verður bækistöð fyrir keppendur og starfsfólk, þangað geta keppendur komið og gætt sér á kraftmikilli kjötsúpu á meðan á rathlaupinu stendur.
Keppnisgjöld: Fjölskyldurathlaup 4 klst. 2000 kr. á lið, 10 klst. rathlaup 10.000 kr. á lið, 24 klst. rathlaup 15.000 kr. á lið.
Innifalið kjötsúpa, aðgangur að safninu í Sænautaseli og hjólabátum, gleði og gaman að keppni lokinni.
Allir keppendur í fjölskylduflokki fá viðurkenningu fyrir þátttökuna en glæsileg verðlaun eru veitt fyrir stigahæsta liðið í 10 og 24 klst hlaupunum.
Framkvæmd rathlaupsins er í höndum UÍA, Austurfarar og Fljótsdalshéraðs, með stuðningi frá Alcoa Fjarðaráli. Björgunarsveitin Jökull sér um öryggismál keppninnar og verður með vakt á svæðinu.
Hvetjum alla sem gaman hafa af hreyfingu, kortalestri, rötun, samvinnu, útivist og samveru í fallegu umhverfi til að taka daginn frá.