Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði vel sótt
Ráðstefnan „Ungt fólk og lýðræði“ fór fram á Hvolsvelli 29. -31. mars. Um 100 manns víðs vegar af að landinu á aldrinum 16-25 ára sóttu ráðstefnuna. Erla Gunnlaugsdóttir var fulltrúi UÍA á ráðstefnunni auk þess sem Gunnar okkar Gunnarsson stýrði þar umræðum.
Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var ungt fólk og fjölmiðlar. Ungmennafélag Íslands, sem stóð að ráðstefnunni, hefur ávallt lagt áherslu á lýðræðislega þátttöku ungs fólks og vandað var til dagskrár ráðstefnunnar í hvívetna. Þetta er í þriðja skipti sem þessi ráðstefna er haldin.
Ráðstefnan var styrkt af Evrópa unga fólksins sem er íslenska heitið á Ungmennaáætlun Evrópusambandsins, Youth in Action, og er samstarfsverkefni ESB, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og UMFÍ.
Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, setti ráðstefnuna og forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði þátttakendur. Þátttakendur fengu kynningu um fjölmiðla, mannréttindi og hópefli og völdu sér síðan vinnustofur í framhaldi af því.