Á ég að segja þér sögu? Farandnámskeið í frásagnarlist
UÍA með stuðningi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Menningarráði Austurlands flakkar nú um Austurland með námskeið í frásagnarlist í farteskinu. Námskeiði ber yfirskriftina ,,Á ég að segja þér sögu?” og er ætlað krökkum í 5.-10. bekk. Grunnskólar á Austurlandi hafa tekið framtakinu fagnandi en þeim stendur til boða að fá námskeiðið inn á skólatíma og hefur það gefist vel. Nemendur Brúarásskóla sátu námskeiðið í gær og skemmtu sér hið besta.
Markmið námskeiðsins er að kenna börnum og unglingum á aldrinum 10-16 ára grunnatriði í frásagnarlist, vekja áhuga þeirra á sagnaforminu og styrkja þau í að tala fyrir framan áhorfendur.
Á námskeiðinu verður farið í helstu þætti frásagnarlistar, þátttakendum sagðar sögur og þeim leyft að spreyta sig í sagnaflutningi , einnig verður námskeiðið brotið upp með leikjum og æfingum ýmiskonar.
Berglind Agnarsdóttir hjá Sögubroti kennir á námskeiðinu en hún hefur starfað sem sagnaþulur í u.þ.b. 20 ár. Berglind hefur sótt námskeið í frásagnalist til: Skotlands, Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur auk þess að hafa kennt á fjölda mörgum námskeiðum sjálf. Þá hefur hún komið fram á sagnahátíðum víða um heim og ber titilinn "besti sagnamaður Íslands 2011".
Auk Brúarásskóla hefur námskeiðið nú þegar heimsótt Djúpavog og Seyðisfjörð.Berglind heimsækir Hallormsstaðaskóla 12. apríl, Borgarfijörð eystra þann 26. apríl, og Nesskóla 3. maí. Námskeiðið stendur öllum grunnskólum á Austurlandi til boða og er því væntanlegt víðar en dagsetningar heimsóknanna liggja ekki fyrir að svo stöddu.
Á myndinn hér til hliðar má sjá Berglindi ásamt nemendum Brúarásskóla.