Velheppnað Páskaeggjamót UÍA og Fjarðasports í frjálsum íþróttum

Fjöldi frjálsíþróttakrakka sóttu Páskaeggjamót UÍA og Fjarðasports sem frjálsíþróttaráð UÍA hélt í samstarfi við Þrótt síðastliðinn laugardag í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Mótið var ætlað keppendum 11 ára og eldri og var þátttaka góð en 39 keppendur frá Þrótti, Þristi, Hetti, Val og Leikni mættu til leiks. Framkvæmd mótsins gekk ljómandi vel og gaman hve mörg ný andlit mátti sjá bæði í hópi keppenda og starfsfólks. Greinilegt er að mikill áhugi er á frjálsíþróttastarfi víða um fjórðung.

Keppt var í kúluvarpi, langstökki án atrennu, hástökki, þrístökki án atrennu og 100 m hlaupi í flokkum 11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára og 16 ára og eldri. Keppendur söfnuðu stigum með árangri í hverri grein fyrir sig og mátti sjá einbeitnina skína úr hverju andliti, enda til mikils að vinna. Því í lok móts var heildar stigafjöldi hvers og eins lagður saman og sá hlutskarpasti í hverjum flokki verðlaunaður með stóru páskaeggi. Rafmögnuð spenna lá í loftinu þegar úrslit voru tilkynnt enda víða mjótt á mununum.

Hér má sjá efstu keppendur í hverjum flokki:

11 ára strákar

Hafsteinn Máni Hallgrímsson Þristi 30 stig

11 ára stelpur

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir Hetti 30 stig

Eva María Thorarensen Hetti 25 stig

12-13 ára strákar

Kári Tómasson Þrótti 25 stig

Birkir Freyr Andrason Þrótti 19,5 stig

Daði Þór Jóhannsson Leikni 18 stig

12-13 ára stelpur

Efstar og jafnar Eyrún Gunnlaugsdóttir Hetti og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir Þrótti báðar með 25 og jafn marga sigra.

Jóhanna Malen Skúladóttir Þristi 20 stig

14-15 ára strákar

Jónas Bragi Hallgrímsson Þristi 22 stig

Mikael Máni Freysson Þristi 22 stig (en færri sigrar)

Sigurður Karl Benediktsson Blöndal Þristi 21 stig

14-15 ára stelpur

Hrefna Ösp Heimisdóttir Hetti 30 stig

Eydís Hildur Jóhannsdóttir Þristi 25 stig

16 ára og eldri strákar

Örvar Þór Guðnason Hetti 30 stig

Ragnar Ingi Axelsson Þrótti 23 stig

Einar Bessi Þórólfsson Þristi 21 stig

16 ára og eldri stelpur

Auðbjörg Hulda Þórarinsdóttir Hetti 27 stig

Erla Gunnlaugsdóttir Hetti 23 stig

Allir keppendur fengu lítið páskaegg að launum fyrir þátttökuna auk þess sem þrír heppnir keppendur hlutu útdráttarverðlaun frá Fjarðasporti og UÍA. Að móti loknu var keppendum boðið í sund og voru farnar ófáar ferðir í rennibrautinni Dóra rauða í síðdegissólinni.

Keppendum í 6. og 7. bekk gafst kostur á að fá árangur sinn á mótinu skráðan inní Skólaþríþraut FRÍ sem stendur nú yfir. Í þrírþautinni er att kappi í kúluvarpi, hástökki og 100 m hlaupi. Sigurvegarar á hverju landssvæði verða boðaðir í lokakeppni sem verður í Reykjavík 5. maí næstkomandi, þar verður keppt til úrslita og vegleg verðlaun í boði. Spennandi verður að sjá hvort einhverjir af keppendum Páskaeggjamótsins verða þar á meðal. Nánari upplýsingar um þríþrautina má finna hér á heimasíðu FRÍ og þar verða úrslit úr undankeppni kunngjörð í byrjun apríl.

Þökkum við Fjarðasporti kærlega fyrir stuðning við mótið, Þrótti fyrir góðar móttökur, starfsfólki fyrir ómetanlega aðstoð og keppendum fyrir drengilega og spennandi keppni.

Úrslit og árangra í hverri grein má finna hér. Þar sem 100 m hlaupið fór ekki fram við viðurkenndar aðstæður fylgja tímar ekki með í úrslitum.

Fjölda skemmtilegra mynda sem Jón Guðmundsson tók á mótinu má finna hér í myndasafni UÍA.

Á efri myndinni hér til hliðar má sjá sigurvegarana með páskaeggin gómsætu, Hildur Bergsdóttir tók myndina. Á neðri myndinni  gefur á að líta keppendhópinn allan, Jón Guðmundsson tók myndina.

 

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ