Farandljósmyndasýningin ,,Ljúfar minningar frá liðnu sumri" farin á flakk
Í fyrra flökkuðu um gjörvallt Austurland þrír stafrænir myndarammar með myndum úr 70 ára starfi UÍA. Rammarnir heimsóttu alla þéttbýlisstaði á Austurlandi og glöddu þar gesti og gangandi.
Rammarnir víðförlu hafa nú lagt af stað í aðra hringferð um Austurland, að þessu sinni eru þeir stútfullir af myndum frá síðastliðnu sumri, sem var afar viðburðarríkt eins og allir vita.
Yfirskrift sýningarinnar nú er ,,Ljúfar minningar frá liðnu sumri" og má þar meðal annars sjá myndir úr Launaflsbikarnum, frá keppni og afmælisfögnuði á Sumarhátíð, svipmyndir úr farandþjálfun UÍA og Frjálsíþróttaskóla UMFÍ og síðast en ekki síst fjöldan allan af myndum frá Unglingalandsmótinu.
Myndir á sýningunni eiga eftirfarandi ljósmyndarar:
Bjarni Jens Kristinsson, Garðar Eðvarðsson, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Kristinn Gunnarsson, Hildur Bergsdóttir, Jóhann Atli Hafliðason, Nökkvi Jarl Óskarsson og Sigríður Þrúða Þórarinsdóttir.
Ljósmyndasýningin ,,Ljúfar minningar frá liðnu sumri "hefur nú þegar heimsótt Hallormsstað og Borgarfjörð eystri, og stendur nú yfir á Stöðvarfirði. Norðfirðingar og Eskfirðingar mega eiga von á römmunum til sín um næstu helgi. Rammarnir eru jafnan staðsettir í sundlaugum eða íþróttamiðstöðvum og staldra við í tvær til þrjár vikur á hverjum stað.
Á myndinni hér til hliðar má sjá nemendur grunnskólans á Borgarfirði eystra virða sýninguna fyrir sér. Myndina tók Helga Erla Erlendsdóttir skólastjóri.