Höttur hampar Hennýjarbikarnum
Sunddeild Austra hélt þann 3. mars síðastliðinn Hennýjarmót, til minningar um Þorbjörgu Henný Eiríksdóttur sem fórst af slysförum fyrr í vetur, en Henný hefði orðið 18 ára þennan dag.
Mótið var ætlað keppendum 16 ára og yngri og var þátttaka afar góð en 83 sundkappar frá Hetti, Leikni, Austra, Sindra og Þróttii, mættu til leiks í sundlaugina á Eskifirði.
Þátttakendur í flokkum 8 ára og yngri, 9-10 ára kepptu í 25 m bak-, skrið-, og bringusundi og öttu kappi í bringu-, bak- og skriðsundi en keppendur í flokkum 11-12 ár, 13-14 ára og 15-16 ára reyndu með sér í 50 m bak-, skrið-, bringu-, og flugsundi.
Að móti loknu fór fram verðlaunaafhending og pizzuveisla á Kaffihúsinu á Eskifirði. Hennýjarbikarinn hlaut það lið sem flest gullverðlaun fékk á mótinu og var það sunddeild Hattar sem hampaði honum en Hattarkrakkar unnu til 18 gullverðlauna á mótinu og voru því vel að bikarnum komnir en Þróttur og Austri voru næst með níu gullverðlaun hvort félag.
Á myndinni hér til hliðar má sjá lið Hattar fagna sigri.