Líf og fjör hjá skíðafólki

Það var í nógu að snúast hjá austfirsku skíðafólki um síðustu helgi og verður áfram.

Fjöldi keppenda 12 ára og yngri frá Skíðafélaginu í Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar heimsóttu félaga sína í Mývetningi heim og kepptu þar á Kröflumóti. Á  laugardaginn léku veðurguðirnir við hvurn sinn fingur og keppni í svig og stórsvigi gekk vel.

Auk þess að bruna um brekkunar gæddu keppendur sér á grilluðum pylsum, svömluðu í Jarðböðunum og skemmtu sér saman á kvöldvöku. Á sunnudeginum þurfti hinsvegar að aflýsa keppni vegna veðurs en í stað þess fengu keppendur kynningarferð um Kröfluvirkjun og höfðu gagn og gaman af.

Um síðustu helgi fór fram Bikarmót 13-14 ára í Oddskarð, það sóttu um 50 keppendur víðsvegar að af landinu. Á laugardeginum lék veðrið við keppendur og aðstæður voru eins og best verður á kosið. Björn Ásgeir Guðmundsson úr Skíðafélagi Fjarðabyggðar náði bestum árangri okkar fólks en hann hafnaði í öðru sæti í flokki drengja.  Á sunnudeginum blés helst til hressilega og aflýsa varð keppni. Heildarúrslit mótsins má finna hér á heimasíðu Skíðafélags Fjarðabyggðar.

Í gær var blásið til Oddskarðsmóts þar sem meðal annars þeim keppendum, sem urðu af keppni vegna veðurs deginum áður, gafst færi á að spreyta sig. Aðstæður voru hinar bestu og allt gekk að óskum.

Næstu helgi fer svo fram Austurlandsmót í Stafdal. Þar verður keppt í svigi og stórsvigi í flokkum 8 ára og yngri, 9-10 ára og 11 ára og eldri. Nánari upplýsingar um mótið má finna hér á heimasíðu Skíðafélagsins í Stafdal.

Hér til hliðar má sjá mynd af hrssum skíðakrökkum á Kröflumóti, myndin er fengin af vef Skíðafélagsins í Stafdal.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ