Gnótt bronsa og brosa á MÍ 11-14 ára
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fyrir 11-14 ára fór fram í Laugardalshöll síðustu helgi. 363 keppendur frá 19 félögum viðsvegar að af landinu áttust þar við.
UÍA átti 12 keppendur á mótinu og stóðu þeir sig með prýði, jafnt innan vallar sem utan. Allir UÍA keppendur bættu árangur sinn, fimm verðlaun skiluðu sér austur og margoft átti UÍA fulltrúa í úrslitum en þangað rata átta hlutskörpustu.
Nokkrir okkar keppenda voru að keppa á sínu fyrsta stórmóti, Halla Helgadóttir var þar á meðal en enga bilbug var á henni að finna og sópaði hún að sér verðlaunum í flokki 11 ára stúlkna. Halla varð önnur í 800 m hlaupi á tímanum 2,51,08 mín, þriðja í langstökki með stökk upp á 4,06 m og í hástökki þar sem hún fór yfir 1,21 m. Daði Þór Jóhannsson hafnaði í þriðja sæti í 800 m hlaupi í flokki 12 ára pilta á tímanum 2,42,44 mín. Boðhlaupssveit UÍA nældi sér í brons í 4x200 m boðhlaupi í flokki 14 ára pilta.
Ferðin gekk vel og var góð stemming í hópnum, Lovísa Hreinsdóttir og Hildur Bergsdóttir voru þjálfarar hópsins og voru þær að vonum sáttar við sitt fólk.
Heildarúrslit mótsins má finna hér á heimasíðu FRÍ og svipmyndir af keppendum UÍA má finna hér í myndasafni UÍA.
Á myndunum hér til hliðar má sjá Höllu Helgadóttur á flugi í langstökki og bronsboðhlaupssveit UÍA.