Yfir sjö þúsund vinnustundir sjálfboðaliða að baki Unglingalandsmótinu

Á fimmta hundrað sjálfboðaliða lögðu á sig samtals yfir sjö þúsund stunda vinnu til að Unglingalandsmót UMFÍ yrði að veruleika. Nítján félög lögðu til sjálfboðaliða en langflestir komu frá Hetti.

Frá þessu var greint á uppgjörsfundi Unglingalandsmótsnefndar á Egilsstöðum í gærkvöldi. Sjálfboðaliðarnir voru alls 431 og vinnustundir þeirra 7176. Flestir sjálfboðaliðanna, 56% skráðu sig til vinnu fyrir Hött á Egilsstöðum.

Flestir sjálfboðaliðar voru að störfum við frjálsíþróttir eða 100 og næst flestir við knattspyrnu, 57. Flestar vinnustundir voru einnig skráðar á frjálsíþróttirnar, 2026 eða 28% en næst flestar á undirbúningsnefndina, 23%. Nefndin var að störfum í um tvö ár.

Yfir 60% vinnustundanna voru skráðar á sjálfboðaliða Hattar en næst flestar á Akstursíþróttafélagið START (6,4%) og á Þrist (4,8%).

Engin launuð störf eru inn í þessum tölum. Uppgjör mótsins verður nánar kynnt fyrir aðildarfélögum UÍA á þingi í vor. Tölurnar sýna, svo ekki verður um villst, þau miklu verðmæti sem ungmenna- og íþróttahreyfingin skapar með sjálfboðaliðavinnu.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ