UÍA hlýtur styrk frá Menningarráði Austurlands
Menningarráð Austurlands stykir á ári hverju ótal stofnanir, samtök og einstaklinga til góðra verka á sviði lista og menningar. Afhending styrkja fór fram í Snæfellsstofu í gær, með mikilli viðhöfn. Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir ávarpaði samkomuna og afhenti styrkina. UÍA hlaut einn þeirra vegna verkefnisins ,,Á ég að segja þér sögu?" Námskeið í frásagnalist fyrir börn og unglinga, sem sambandið mun halda nú á næstu mánuðum.
Námskeiðið mun heimsækja að minnsta kosti sex þéttbýliskjarna á Austurlandi, en Berglind Agnarsdóttir sagnaþula mun þar kenna börnum og unglingum undirstöðuatriði í frásagnarlist og segja sögur af sinni alkunnu snild.
Ráðherra, sem og fleirum, var tíðrætt um hina miklu grósku sem er í austfirsku lista- og menningarlífi og báru verkefnin, sem styrki hlutu í gær, þess glöggt vitni.
Á efri myndinni má sjá framkvæmdastjóra UÍA taka við styrknum úr hendi ráðherra og á þeirri neðri má sjá alla styrkhafa saman komna.
Ragnar Sigurðsson, ritstjóri Austurgluggans tók myndirnar.