Vilhjálmur fyrstur í heiðurshöll ÍSÍ

Vilhjálmur Einarsson varð í dag fyrsti maðurinn til að vera tekinn inn í nýstofnaða heiðurshöll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Vilhjálmur varð árið 1956 fyrsti Íslendingurinn til að vinna til verðlauna á ólympíuleikum þegar hann fékk silfurverðlaun í þrístökki á leikunum í Melbourne í Ástralíu.

„Það er með hrærðum huga sem ég tek við þessari nafnbót en ég vona að þið látið mig ekki vera lengi einan í þessari höll,“ sagði Vilhjálmur í þakkarræðu sinni í dag. Viðurkenningin var veitt í 100 ára afmælishátíð ÍSÍ í Ráðhúsi Reykjavíkur. Vilhjálmur vakti mikla lukku í boðinu þar sem hann flutti þakkarræðuna að mestu leyti í bundnu máli.

Samþykkt var í fyrra að stofna heiðurshöll ÍSÍ í tilefni af afmæli sambandsins. Sérstakt heiðursráð tilnefnir einstaklinga í höllina en stjórn ÍSÍ velur úr þeim. Útnefning Vilhjálms var einróma samþykkt á sérstökum afmælisfundi stjórnar fyrir hófið í dag.

Ólafur Rafnsson, formaður ÍSÍ, fór í stuttu máli yfir feril Vilhjálms þar sem afrekið á ólympíuleikunum stendur upp úr. Vilhjálmur varð fimmti á leikunum í Róm fjórum árum síðar en í millitíðinni varð hann þriðji á Evrópumeistaramóti. Vilhjálmur hefur alla tíð starfað ötullega innan íslensku íþrótta- og ungmennafélagshreyfinganna, meðal annars aðstoðaði hann við Unglingalandsmótið á Egilsstöðum síðasta sumar.

Ólafur Rafnsson afhendir Vilhjálmi viðurkenninguna. Mynd: UMFÍ/Jón Kristján

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok