Íþróttamaður Fjarðabyggðar valinn.
Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Skólamiðstöð Fáskrúðsfjarðar, fimmtudaginn 29. desember.
Fyrir valinu var blakkonan Helena Kristín Gunnarsdóttir frá Norðfirði. Helena var einn af máttarstólpum í meistaraflokki kvenna sem vann þrefalt á keppnistímabilinu og er því Íslands-, bikar- og deildarmeistari með Þrótti.
Helena spilaði með þremur landsliðum á árinu. Hún var valin í A – landslið kvenna sem keppti á smáþjóðaleikunum í Lichtenstein. Þá var hún í fyrsta U – 19 ára landsliði Íslands í strandblaki kvenna sem keppti á Norðurlandamóti í Drammen í Noregi og að lokum spilaði hún með U–19 ára landsliðinu á Norðurlandamóti í Færeyjum í nóvember þar sem þær urðu í 3ja sæti. Í vináttuleik við Færeyjar eftir mótið var hún valinn besti leikmaðurinn í þeim leik.
Helena er fyrirmynd allra ungmenna og er ekki bara góður íþróttamaður heldur góð manneskja og gefur mikið af sér, stundar heilbrigt líferni, er ábyrg og metnaðarfull í því sem hún tekur sér fyrir hendur.
Við óskum Helenu til hamingju með titilinn og óskum henni farsældar á nýju ári.