Neisti bikarmeistari Austurlands í sundi

Sundráð UÍA stóð fyrir Bikarmóti í sundi, síðastliðinn laugardag og fór það fram á Djúpavogi. Ríflega 80 keppendur á aldrinum 6-16 ára tóku þátt í mótinu og ríkti góð stemming meðal keppenda og áhorfenda. Framkvæmd mótsins gekk afar vel enda lögðu margir sjálfboðaliðar hönd á plóginn.

Mótið er stigamót milli sunddeilda á Austurlandi þar sem keppt er um sæmdarheitið Bikarmeistari Austurlands. Einnig eru veitt verðlaun fyrir næst stigahæsta liðið og stigahæstu karla- og kvennalið.

Sunddeild Hattar átti stigahæsta karlalið mótsins og nældi það sér í 183 stig en Neisti átti stigahæsta kvennaliðið með 189 stig.

Neisti hreppti titilinn Bikarmeistari Austurlands þriðja árið í röð, með 363 stig, og brutust út mikil fagnaðarlæti meðal heimamanna er úrslitin voru kunngjörð, en að þessu sinni fékk Neisti harða keppni frá Hetti sem varð í öðru sæti með 332 stig. Leiknir hafnaði í þriðja sæti með 162 stig og Sindri í því fjórða með 158 stig.

Á myndinni hér til hægri má sjá nýkrýnda Bikarmeistara Neista og á myndinni til vinstri lið Hattar sem hafnaði í öðru sæti.  Í myndasafninu hér á síðunni má sjá fleiri myndir frá mótinu.

Í tengslum við mótið var boðið upp á æfingabúðir í sundi á sunnudeginum og tókust þær vel í alla staði. Það voru því þreyttir en glaðir sundgarpar sem héldu heimleiðis frá Djúpavogi seinnipart sunnudags.

Þökkum við keppendum, áhorfendum, þjálfurum, starfsfólki og öllum þeim er lögðu okkur lið, fyrir skemmtilega sundhelgi.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ