Ásmundur glímukóngur Íslands og Kristín glímudrottning

Íslandsglíman 2022 fór fram í íþróttahúsinu á Reyðarfirði þann 30. apríl.

Þar var keppt um Freyjumenið í kvennaflokki og Grettisbeltið, elsta verðlaunagrip á Íslandi, í karlaflokki. Sigurvegararnir að þessu sinni voru Ásmundur Hálfdán Ásmundsson sem hlaut nafngiftina Glímukóngur Íslands og Kristín Embla Guðjónsdóttir sem er Glímudrottning Íslands en bæði koma þau frá Reyðarfirði og keppa undir merkjum UÍA. 
 
UÍA átti í heildina sex keppendur í karlaflokki þá Ásmund Hálfdán Ásmundsson, Hjört Elí Steindórsson, Hákon Gunnarsson sem lenti í þriðja sæti, Snjólf Björgvinsson, Þórð Pál Ólafsson og Ægi Örn Halldórsson. Í kvennaflokki var Kristín Embla Guðjónsdóttir ein fyrir UÍA.

Þóroddur Helgason var kjörinn Heiðursfélagi GLÍ á mótinu en hann hefur verið virkur í glímusamfélaginu á Reyðarfirði í mörg ár. Hóf ungur að æfa glímu sjálfur undir handleiðslu Aðalsteins Eiríkssonar og unnið nokkra titla. Hann flutti svo aftur austur á Reyðarfjörð á níunda áratugnum og hóf að kenna glímu á Reyðarfirði árið 1986 en vinsældir glímunnar urðu fljótt miklar. Á þessum u.þ.b 35 árum sem Þóroddur hefur komið að glímuþjálfun hafa margir, bæði iðkendur og bæjarbúar, fengið að kynnast íþróttinni og núna er yngri kynslóð að taka við keflinu af hinu góða búi sem Þóroddur skilaði af sér. Þóroddur hefur því unnið ötullega að þróun og útbreiðslu glímunnar á Reyðarfirði og er vel að heiðursverðlaununum kominn.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ