Guðmundur Hallgrímsson látinn
Guðmundur Hallgrímsson, fyrrverandi rafverktaki og íþróttamaður frá Fáskrúðsfirði, lést á föstudag, 84 ára að aldri.
Guðmundur var fæddur 19. maí árið 1936 að Hafnarnesi í Fáskrúðsfirði. Hann starfaði sem rafverktaki á Fáskrúðsfirði vel fram yfir sjötugt.
Þekktastur er Guðmundur þó sennilega fyrir afrek sín á íþróttasviðinu. Hann setti nokkur Íslandsmet á ferlinum og stendur met hans í 200 metra hlaupi í flokki 50 ára og eldri enn, 25,06 sekúndur.
Guðmundur keppti fyrst á landsmóti UMFÍ á Akureyri árið 1955 og því síðasta einnig þar árið 2009. Hann tók síðar þátt í landsmótum 50 ára og eldri, meðal annars í spretthlaupum, lomber og boccia.
Sumarið 2009 keppti hann einnig á Sumarhátíð UÍA í 100 metra hlaupi og kom í mark á tímanum 17,15 sek. Síðar var hann fastagestur í bocciakeppni hátíðarinnar og vann hana oftar en einu sinni. Þá keppti Guðmundur nokkrum sinnum á Norðurlandamótum öldunga, auk annarra móta.
Auk íþróttaferilsins hlaut Guðmundur fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt til félagsmála innan hreyfingarinnar, meðal annars starfsmerki UÍA.
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Dóra Gunnarsdóttir. Þau eiga fjögur börn.
UÍA sendir aðstandendum Guðmundar innilegar samúðarkveðjur.