Sambandsþing UÍA 2021 - Benedikt nýr formaður
71. Sambandsþing UÍA fór fram á fjarfundi laugardaginn 17. apríl. Þátttaka var góð og þingstörf gengu vel fyrir sig þar sem röggsamur fundarstjóri Stefán Bogi Sveinsson hélt um taumana.
Þau tíðindi urðu á þinginu að Gunnar Gunnarsson gaf ekki kost á sér í áframhaldandi formennsku “mér fannst kominn tími á mig,‟ sagði Gunnar Gunnarsson, fráfarandi formaður en hann hefur verið formaður UÍA í níu ár og einn dag. Gunnar situr í stjórn UMFÍ og segir enga breytingu verða á því.
Benedikt Jónsson var kjörinn nýr formaður UÍA, Benedikt hefur setið í stjórn UÍA í fjögur ár fyrst sem meðstjórnandi og svo gjaldkeri.
Benedikt nýkjörinn formaður UÍA, segist taka við góðu búi. UÍA fagni 80 ára afmæli á árinu, félagið sé með endurnýjaða stjórn og trausta fjárhagsstöðu til að ráðast í þau verk sem þarf að vinna.
Gunnar og Ester Sigurðardóttir hættu í stjórn UÍA og í þeirra stað koma Guðjón Magnússon og Björgvin Stefán Pétursson auk þeirra eru í stjórn UÍA þær Þórunn María Þorgrímsdóttir og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, sem er varaformaður UÍA.
UÍA þakkar Gunnari fráfarandi formanni fyrir frábært starf og óeigingjart á undanförnum árum sem og Ester, UÍA óskar þeim velfarnaðar á komandi árum.
Á þinginu var tilkynnt að Þórarinn Örn Jónsson, blakmaður frá Þrótti Fjarðabyggð hefði verið kjörinn íþróttamaður UÍA. Hann var fyrirliði úrvalsdeildarliðs Þróttar sem var krýndur deildarmeistari 2020.
Einnig var tilkynnt að Elsa Sigrún Elísdóttir frá Leikni Fáskrúðsfirði hefði hlotið Hermannsbikarinn, hvatningarverðlaun UÍA.
Verðlaunin verða afhent viðkomandi við hentugleika.