Sprettur Sporlangi á Sambandsþingi UMFÍ

Sambandsþing UMFÍ fór fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri síðastliðna helgi. UÍA átti þar átta þingfulltrúa og höfðu þeir í nógu að snúast enda þingið starfssamt og margvísleg málefni hreyfingarinnar tekin fyrir.

Hefðbundin nefndarstörf voru að sjálfsögðu á dagskrá og hér gefur að líta eina af þeim tillögum sem þingið samþykkti samhljóða:

47. sambandsþing Ungmennafélag Íslands haldið í Menningarhúsinu HOFI, Akureyri 15.- 16. október 2011, þakkar Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands fyrir góða framkvæmd og skipulagningu á 14. Unglingalandsmóti UMFÍ, svo og íbúum öllum á sambandssvæðinu fyrir það mikla sjálfboðaliðastarf sem lagt var fram.

UÍA þakkaði fyrir þessi hlýju orð sem og komuna á Unglingalandsmót með viðeignandi hætti, en Sprettur Sporlangi steig í pontu og hafði eftirfarandi fram að færa:

Á landsmóti er líf og fjör
Leikur, söngur, gaman.
Börnin öll með bros á vör,
best að vera saman.

Sællegur og sáttur kveð,
segi bless með kossi.
Hlaupum, hoppum, allir með.
Sjáumst á Selfossi.

Vakti málflutningur hans og framganga öll verðskuldaða athygli og lófatak.

Ýmsar heiðrarnir voru veittar á þinginu. Héraðssamband Vestfirðinga hlaut hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir nýungar í starfi og ötult samstarf við sveitarfélagið. Björn B. Jónsson var sæmdur heiðursfélagsnafnbót UMFÍ fyrir þróttmikið starf í þágu hreyfingarinnar. Mathákur þingsins var að venju valinn, en á því sviði þótti okkar maður Stefán Bogi Sveinsson bera af og hlaut hann að launum forlátan ask. Stefán Bogi var að vonum sáttur við viðurkenninguna og í þakkarræðu sinni sagði hann meðal annars „nú hefur loks þrotlaus ástundun á þessu sviði skilað tilætluðum árangari".

Ekk blés jafn byrlega um okkar fólk þegar kom að stjórnarkosningum. Á síðasta kjörtímabili átti UÍA fulltrúa í stjórn og varastjórn UMFÍ, þá Björn Ármann Ólafsson gjaldkera og Gunnar Gunnarsson varastjórnarmann. Sá síðarnefndi gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu í aðal- eða varastjórn. UÍA hefur kappkostað að eiga fólk í stjórnum og nefndum landssamtakanna UMFÍ og ÍSÍ, enda brýnt að gæta hagsmuna fjórðungsins á þeim vettvangi. Gunnar náði þó hvorki sæti í aðal- eða varastjórn að þessu sinni, mjótt var á mununum og var hann næstur inn í báðum tilvikum en aðeins vantaði eitt atkvæði til að tryggja honum sæti í varastjórn.

Vitanlega voru þetta fulltrúum UÍA nokkur vonbrigði en Gunnar hefur starfað af krafti innan UMFÍ síðustu tvö ár og ásamt Birni Ármanni verið okkur þýðingarmikill talsmaður Austurlands. Ljóst er að við hér eystra þurfum að vinna markvisst að því að bæta okkar hlut í næstu kosningum og láta rödd fjórðungsins hljóma sem víðast í nefndum og öðrum stöfum á vegum landssamtakanna tveggja.

En við horfum fram á veginn og óskum nýrri sjórn til hamingju með kosninguna og velfarnaðar í starfi.

Nýja aðalstjórn skipa: Helga Guðrún Guðjónsdóttir, Héraðssambandinu Skarphéðni mun starfa áfram sem formaður. Stefán Skafti Steinólfsson, Ungmennafélaginu Skipaskaga, Haukur Valtýrsson Ungmennafélagi Akureyrar, Jón Pálsson, Ungmennasambandi Kjalarnesþings og Bolli Gunnarsson, Héraðssambandinu Skarphéðni koma ný inn í stjórn. Þær Björg Jakobsdóttir Ungmennasambandi Kjalarnesþings og Eyrún Harpa Hlynsdóttir, Héraðssambandi Vestfirðinga voru endurkjörnar.

Sæti í nýrri varastjórn eiga Baldur Daníelsson, Héraðssambandi Þingeyinga, Matthildur Ásmundsdóttir Ungmennasambandinu Úlfljóti, Anna María Elíasdóttir, Ungmennasambandi Vestur Húnvetninga og Einar Kristján Jónsson, Ungmennafélaginu Vesturhlíð sem var endurkjörinn í varastjórn.

Þökkum við Birni Ármanni og Gunnari fyrir vel unnin störf og mikilvægt framlag til UMFÍ.

 


 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ