Sumarhátíð í ljósi Covid-19

Stjórn UÍA kom saman til fundar um mótshald Sumarhátíðar 2020 á miðvikudag, að höfðu samráði við almannavarnir á Austurlandi.

 

Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands laugardaginn 27. júní var þeim tilmælum beint sérstaklega til skipuleggjenda íþróttaviðburða að íhuga hvort rétt væri að standa fyrir íþróttaviðburðum. Bæði áður og í kjölfarið hefur UÍA átt í samskiptum við fulltrúa aðgerðastjórnarinnar til að finna út hvernig best verði staðið að Sumarhátíð.

Stjórn UÍA er einhuga um að framfylgja í hvívetna fyrirmælum almannavarna en um leið að tryggja framboð á hreyfingu með hagsmuni barna og unglinga á Austurlandi í huga.

Út frá þessu hefur verið ákveðið að greinar á Sumarhátíð 2020 verði aðeins í boði fyrir börn fædd 2005 og síðar. Miðað er við aldurstakmörk um skimanir á landamærum Íslands. 

Stjórn UÍA hefur enn fremur farið yfir keppnisgreinar mótsins og aðra dagskrárliði með sóttvarnir í huga. Hátíðin fer fram laugardag og sunnudag 11. og 12. júlí.

Ekki verða afhent verðlaun fyrir árangur í keppni. Þetta er gert til að draga úr samgangi og snertiflötum. Í staðinn munu allir þátttakendur fá viðurkenningar fyrir þátttökuna.

Samkvæmt minnisblaði sóttvarnalæknis frá 8. júní eru engar sérstakar takmarkanir á íþróttastarfi en gæta þarf að hámarksfjöldi fullorðinna fari ekki yfir 500 einstaklinga í sama rými. Miðað við reynslu síðustu ára er ekki ástæða til að áætla að fjöldi fullorðinna á Sumarhátíð 2020 fari yfir þann fjölda.

UÍA mun leggja sig fram um að tryggja sóttvarnir, svo sem aðgang að sótthreinsunarspritti, á mótsstað. Stjórn sambandsins minnir þó alla þá sem sækja Sumarhátíðina á að sýna ábyrgð, svo sem virða fjarlægðartakmarkanir og þvo sér vel um hendurnar. Þá eru gestir hátíðarinnar hvattir til að sækja smitrakningarforrit almannavarna.

UÍA mun senda frá sér nánari upplýsingar um framkvæmd mótsins og sóttvarnir eftir því sem frekari upplýsingar koma fram í næstu viku á heimasíðu sambandsins, Facebook og á mótsstað.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ