Vilhjálmur Einarsson: Minningarorð frá UÍA

Fyrir nokkrum árum skrifaði knattspyrnuþjálfarinn Eysteinn Hauksson háskólaritgerð þar sem hann leitaði svara við spurningunni af hverju Grindvíkingar hefðu náð lengra á íþróttasviðinu en Héraðsbúar, þótt íbúar svæðanna væru álíka margir. Líkt og Eysteinn þurfti ég einhverju sinni að takast á við háðsglósur vina minna af Suðurnesjunum fyrir þetta, uns mér tókst að svara og benda á að Austfirðingar hefðu eignast verðlaunahafa á Ólympíuleikum áratugum á undan Grindvíkingum.


Ég kynnist Vilhjálmi ekki fyrr en á eldri árum í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hann kenndi mér ekki íþróttir heldur stærðfræði. Í slíkum tíma hjá honum var ég þegar Vala Flosadóttir vann til bronsverðlauna í stangarstökk á leikunum í Sydney árið 2000. Vilhjálmur var alltaf að laumast út úr tímanum að sjónvarpsskjánum til að fylgjast með Völu og sagði okkur frá afrekum hennar þegar hann kom til baka. Hann var stoltur þegar hann kom úr einni ferðinni og tilkynnti að Vala hefði farið yfir 4,50 metra og væri þar með kominn í verðlaunasæti. Vilhjálmur varð ekki við beiðnum okkar um að ljúka tímanum strax til að geta fylgst með Völu, en þegar tíminn var úti drifum við okkur til að sjá síðustu stökk Völu.

Íþróttavöllurinn á Egilsstöðum hefur borið nafn Vilhjálms frá árinu 2001, en hann var endurnýjaður fyrir Landsmót UMFÍ sem haldið var hér þá um sumarið. Nokkrir minnisvarðar eru á vellinum um hið glæsilega afrek hans á leikunum í Melbourne árið 1956, annars vegar skjöldur í brekkunni þar sem áhorfendur sitja, hins vegar skúlptúr framan við völlinn sem sýnir stökkið fræga. Íþróttafélagið Höttur hafði frumkvæði að gerð skúlptúrsins af myndarskap þegar 50 ár voru liðin frá afrekinu árið 2016. Þá hafa spor Vilhjálms verið merkt í brautina við hlið stökkgryfjunnar á vellinum. Þegar maður horfir eftir sporunum og skúlptúrnum verður manni ljóst hvílíkt afrek það er að stökkva 16,26 metra í þrístökki.

Vilhjálmur sýndi áhuga á viðburðum á vellinum og lét iðulega sjá sig þegar stærri frjálsíþróttamót voru haldin þar. Hann tók jákvætt í það þegar til hans var leitað eftir aðstoð en hann afhenti meðal annars verðlaun á Unglingalandsmótum UMFÍ þar. Vilhjálmur bar með sér með jákvæði og hvatningu til keppenda, mótshaldara og samferðafólks.

Það má líka segja að Vilhjálmur hafi tekið þátt í Unglingalandsmótinu 2011 en samhliða því hélt hann málverkasýningu í Austrakjallaranum. Vilhjálmur var liðtækur málari og eftir hann liggur fjöldi mynda af austfirsku landslagi sem sumar hanga uppi á opinberum stöðum, almenningi til yndisauka.

Við Austfirðingar minnumst Vilhjálms sem einstaklings sem sannarlega lagði sitt af mörkum til að efla austfirskt samfélag, íþróttalíf og æsku. Fjölskyldu hans votta ég samúð mína.

F.h. Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands
Gunnar Gunnarsson, formaður

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok