Andlát: Vilhjálmur Einarsson

Vilhjálmur Einarsson er látinn, 85 ára að aldri. Vilhjálmur ávann sér frægð með að verða fyrsti Íslendingurinn til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum, er hann vann silfurverðlaun í þrístökki á leikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956.

 

Silfurverðlaunin voru ekki eina afrek Vilhjálms á íþróttasviðinu enda var hann fimm sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Enn hefur enginn hlotið þá nafnbót oftar. 

Eftir að keppnisferlinum lauk kom Vilhjálmur ötullega að uppbyggingu íþróttastarfs hvar sem hann kom, en hann starfaði sem kennari og skólastjóri víða um land. Hann fékk Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála og árið 2012 varð hann fyrstur til að vera tekinn inn í frægðarhöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Þegar nýr íþróttavöllur var vígður á Egilsstöðum árið 2001 var honum gefið nafnið Vilhjálmsvöllur til heiðurs Vilhjálmi. Árið 2016, þegar 50 ár voru liðin frá leikunum í Melbourne, var afhjúpað listaverk utan við völlinn sem sýnir stökkið, 16,25 metra.

Við hjá UÍA minnumst Vilhjálms fyrir öflugan stuðning við austfirskt íþróttalíf, einkum frjálsar íþróttir. Vilhjálmur lét gjarnan sjá sig á vellinum þegar í gangi voru frjálsíþróttamót og hann var gjarnan boðinn og búinn að aðstoða við þau er mótin voru haldin. Þannig var hann meðal þeirra sem afhentu verðlaun á Unglingalandsmótinu 2011. Hann bar með sér jákvæðni og hvatnaðarorð til bæði keppenda og mótshaldara.

Við vottum fjölskyldu Vilhjálms innilega samúð okkar.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok