Sumarið hjá UÍA og Sumarhátíðin á næsta leiti

Sumarið fer vel af stað hjá UÍA, Launaflsbikarinn er kominn á fullt skrið og nú er nýafstaðið Landsmót 50+ í Neskaupstað. Mótið gekk vonum framar og stóðu Austfirðingar, jafnt keppendur sem sjálfboðaliðar, sig frábærlega á öllum sviðum og getum við verið stolt af því að hafa staðið að eins stórum viðburði sem þessum.

Næst á dagskrá er Sumarhátíðin okkar allra, helgina 12.-14. júlí. Við viljum blása lífi í mótið og gildir það sama hér og með Landsmótið, það er ekki hægt að halda slíka viðburði án fólksins í fjórðungnum, sjálfboðaliðum og keppendum. 

Til stendur að byrja mótið af krafti á föstudagskvöldinu og kynnum við þar til leiks Góðgerðamót UÍA fyrir 16 ára og eldri. Hugmyndin felst í því að koma af stað nýrri hefð sem lætur gott af sér leiða. Mótið er einungis rekið á styrkjum og er allur ágóði lagður til málefnis sem valið er hverju sinni. Keppnisgjald er 1500 kr. en opið er fyrir frjáls framlög. Nú á þessu fyrsta góðgerðamóti verður keppt í frjálsum íþróttum, boccia, stígvélakasti og prjóni. Að loknu mótinu verður svo slegið á létta strengi og fjöldasöngur tekinn við Vilhjálmsvöll.
Á laugardeginum verður boðið uppá danssmiðju, keppt verður í rafíþróttum, pílukasti, bogfimi, kökuskreytingum, frisbí golfi auk þess verður fjölskyldu-brenniboltamót og mun Sundráð UÍA standa fyrir sundmóti. Um kvöldið verður svo grillað saman í Bjarnadal, afrakstur danssmiðjunnar sýndur og verðlaunaafhending dagsins fer fram. 

Á sunnudeginum verður svo frjálsíþóttamótið á sínum stað og púttmót bæði yngri og eldri borgara. Keppnisgjald er 2000 kr. á einstakling en 50% systkinaafsláttur er veittur. Keppnisgjald er óháð greinafjölda. Greiða má inn á reikning 0305-26-004104 kt. 660269-4369, kvittun skal send á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. þar sem nafn keppanda er tekið fram.
Dagskráin er í mótun og verður hún birt á facebook viðburði hátíðarinnar: https://www.facebook.com/events/332156917498911/ og mun birtast í Dagskránni.

Við viljum bjóða félögum að hafa sjoppu á svæðinu í fjáröflunarskini en það gildir einfaldlega fyrstur kemur fyrstur fær. Hafið samband í gegnum tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 865-8433(Gréta Sóley) fyrir 9. júlí.

  • Á laugardeginum verður hægt að hafa sjoppu í Nýung.
  • Á sunnudeginum verður hægt að hafa sjoppu við Vilhjálmsvöll. 

Við viljum biðja félögin um að byggja upp stemningu í sínum heimahéruðum og taka niður skráningu hjá sínu fólki en skráningaskjal var sent út á öll félög. 

 

Að lokum viljum við svo minna á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Höfn í Hornafirði um Verslunarmannahelgina. Mótið gæti ekki verið nær okkur og stefnum við því á að senda stórt lið frá UÍA. Mótið er fyrir keppendur á unglinga á aldrinum 11-18 ára. 

Allra síðast minnum við svo á að skráning í Tour de Orminn sem haldinn verður 10. ágúst er í fullum gangi og hægt er að fylgjast með öllu sem tengist viðburðinum hér: https://www.facebook.com/events/322281918447757/

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ